Farþegaflutningar til og frá Íslandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:02:17 (1513)

2001-11-14 14:02:17# 127. lþ. 29.3 fundur 181. mál: #A farþegaflutningar til og frá Íslandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það er sjálfsagt að þakka fyrir þessa fyrirspurn. Hún er hins vegar þannig rökstudd að spurt er um hvort gera þurfi ráðstafanir til að tryggja reglubundnar skipaferðir milli Íslands og meginlandsins til að tryggja farþegaflutninga til landsins í ljósi þeirrar óvissu sem nú vofir yfir flugsamgöngum. Þetta er tengt þeim atburðum.

Þó að mjög gagnlegt sé að skoða þessi mál almennt út frá þeim sjónarhóli, þá held ég að við eigum ekki að nota þennan atburð til þess að byggja eins konar vantrú á flugsamgöngum. Flugsamgöngur hafa orðið til þess að skapa algjöra byltingu í tengslum Íslands við önnur lönd. Þessir atburðir munu ekki að mínu mati setja þau tengsl í neitt uppnám. Þetta er áfall fyrir þær samgöngur og við eigum að leggja áherslu á að styrkja þær samgöngur, styrkja grundvöll þeirra og viðhalda forsendum fyrir reglubundnu farþegaflugi milli Íslands og meginlands Norður-Ameríku og Evrópu.