Farþegaflutningar til og frá Íslandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:03:30 (1514)

2001-11-14 14:03:30# 127. lþ. 29.3 fundur 181. mál: #A farþegaflutningar til og frá Íslandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá síðasta ræðumanni að að sjálfsögðu þurfum við að styrkja grundvöll flugs, enda hefur Alþingi nýlega samþykkt að baktryggja fyrir gríðarlega fjármuni farþegaflug milli landa til að flugsamgöngur legðust ekki af.

Ég vildi hins vegar með fyrirspurn minni benda á þær tvær hliðar farþegaflutninga milli Íslands og annarra landa, þ.e. annars vegar ferðamennsku og hins vegar öryggissjónarmiðið ef flugsamgöngur leggjast af. Nýlega hefur verið blásið af verkfall hjá flugumferðarstjórum. Það þarf ekki mikið til að lama flug milli landa. Að vísu er óvenjulegt að fyrrnefndir atburðir úti í heimi komi upp og til allrar hamingju hafa þeir verið fátíðir í lífi okkar flestra. En þetta er samt staðreynd að það er oft mjótt á mununum, það þarf ekki mikið að gerast í heiminum til þess að raska einhverju slíku, svo sem aðferðum manna til að komast milli staða.

Við eigum ekki valkosti. Við eigum ekki völ á lestarferðum. Við höfum í rauninni enga aðra leið og höfum ekki haft annað en flugið. Við verðum því að horfast í augu við það raunsætt hvort við getum átt aðra valkosti. Og hafa þá einhvers staðar í handraðanum og ekki forsóma þá.

Varðandi stríðsrekstur kemur auðvitað að því þegar slíkt ástand skapast að menn fara að hugsa um hverjar eru birgðir af olíu í landinu, hverjar eru matarbirgðir? Hvernig getur þjóð séð fyrir sér? Og hvernig kemst fólk milli landa? Þetta skiptir okkur allt máli.

Ég tel að ekki sé stætt á því öryggisins vegna fyrir eyþjóð norður í hafi að geta ekki valið um leiðir til að ferðast milli landa eða milli staða á landinu, svo ekki sé minnst á það ef flugi er ógnað. Það er alvarlegt ef siglingum hefur að mestu verið útrýmt. Og ég held við þurfum að horfast í augu við það og velta fyrir okkur hvort stjórnvöld eigi að hafa einhver afskipti af því, bera á því ábyrgð eða greiða fyrir því.