Lagning ljósleiðara

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:08:54 (1517)

2001-11-14 14:08:54# 127. lþ. 29.4 fundur 249. mál: #A lagning ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Lagning á ljósleiðara og verðlagning fjarskipta hefur verið reglulega á dagskrá Alþingis með einum eða öðrum hætti á undanförnum árum. Og það er eðlilegt vegna þess að við erum að tala um nýja samgöngumöguleika sem menn eru sammála um að geti upphafið fjarlægðir og gefið fólki í hinum dreifðu byggðum kost á því að stunda fjölbreyttari atvinnu, nýta sér ýmsa menntunarmöguleika, einnig að fólk geti stundað vinnu heiman að frá sér og notið ýmiss konar afþreyingar.

Ég held að við séum flest sammála um að um stórmál sé að ræða þar sem kemur að möguleikum þess að nýta sér fjarskiptatæknina.

Landssíminn eða öllu heldur Póstur og sími lagði á sínum tíma ljósleiðara um landið. Fram kom að þeim áformum yrði lokið með því að leggja ljósleiðara inn á hvert heimili. Svona höfðu menn háleita drauma fyrir nokkrum árum.

Póstur og sími sótti líka um fjölda sjónvarps- og útvarpsleyfa til að útvarpa um breiðband og þess hafa þeir getað notið sem búa þar sem ljósleiðari hefur þegar verið lagður. En það hefur verið gert, herra forseti, í heilu sveitarfélögin og annars staðar í bæjarhluta þar sem lagningin hefur átt sér stað um leið og annað rask hefur verið í gangi, eða um ný hverfi er að ræða.

Fólk veltir því eðlilega fyrir sér hvort röðin komi að heimili þess innan tíðar eða eftir hvaða reglum sé farið. Menn velta því fyrir sér hvort ekki verði farið með ljósleiðara inn á hvert heimili, þó ekki sé vegna annars en jafnræðisreglunnar og þess að verið er að nota opinbert fé. Og auðvitað vilja allir hafa möguleika á þeim aðgangi.

En til að upplýsa þessi mál og einnig til að við getum áttað okkur á stöðunni, þá hef ég lagt eftirfarandi spurningar á þskj. 285 fyrir hæstv. samgrh. sem er enn handhafi hlutabréfs ríkisins og ræður stjórn fyrirtækisins:

1. Í hvaða sveitarfélögum hefur Landssíminn lagt ljósleiðara? --- Kannski hefði átt að standa þarna Póstur og sími bandstrik Landssíminn og kannski enn eitt bandstrik Síminn, mér finnst þróunin í nafni fyrirtækisins svo hröð.

2. Hvar er fyrirhugað að halda áfram við lagningu ljósleiðara?

3. Hvaða skilyrði þurfa sveitarfélög að uppfylla til að ljósleiðari sé lagður þar?

4. Hvert telur ráðherra að verði framhald á lagningu ljósleiðara eftir að annar eigandi hefur fengið meiri hluta í stjórn fyrirtækisins?