Lagning ljósleiðara

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:24:08 (1524)

2001-11-14 14:24:08# 127. lþ. 29.4 fundur 249. mál: #A lagning ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir spurði: Hvar liggur hundurinn grafinn? Hún vildi vita hvað liði breiðbandsmálum í Keflavík.

Ég þekki það ekki. Ég get ekki svarað því hér og nú. Hins vegar er það nú svo að víða, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og í mörgum þéttbýlisstöðum um allt land, hefur verið grafin upp mörg gatan til þess að setja lagnir og rör til þess að búa í haginn fyrir uppbyggingu og útbreiðslu ljósleiðarakerfisins. Það gildir m.a. um mína heimabyggð, Stykkishólm.

Vegna þess að hv. fyrirspyrjandi sagði að þeir staðir sem nefndir voru væru engin tilviljun, (Gripið fram í.) þá var þar lögð hitaveita í hvert einasta hús og þótti alveg sjálfsagt mál og mikil fyrirhyggja að leggja rör í allar götur að öllum húsum þannig að hægt yrði að draga ljósleiðara í þau rör þegar þar að kæmi. Því miður þá hefur það ekki gerst enn. Ég nýt þess í höfuðborginni, í þeirri verðbúð, eins og ég kalla hana stundum, sem ég er í, í Reykjavíkinni, að hafa ljósleiðara inn á gafl sem ekki er vestur á Snæfellsnesi. Þannig er nú þetta mismunandi.

Þráðlaus ljósleiðari verður vonandi og er vafalaust tækni sem nýtist. Ég þekki það ekki nákvæmlega. Það segi ég vegna fyrirspurnar hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Ég get því ekki svarað því.

En ég tek undir það að við gerum aðrar kröfur til markaðsráðandi fyrirtækis sem Síminn er, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, og það gerum við í lögunum. Við gerum miklar kröfur til þess og það kemur fram í uppbyggingu Símans um allt land að við gerum allt aðrar kröfur til hans en annarra símfyrirtækja.

En ég hef varað við því, vegna þess sem hv. 1. þm. Vestf. benti á, að til er í landinu dreifikerfi sem lögin kveða á um að önnur símfyrirtæki eigi aðgang að. (Forseti hringir.) Þess vegna varaði ég við því þegar Lína.Net óð af stað við að grafa upp allar götur á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að hér væru ljósleiðarar um allt í borginni. (Forseti hringir.) Það held ég hafi ekki verið skynsamleg fjárfesting að öllu leyti.

(Forseti (ÍGP): Enn minnir forseti hæstv. ráðherra á að virða tímamörk.)