Fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:27:54 (1526)

2001-11-14 14:27:54# 127. lþ. 29.8 fundur 222. mál: #A fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mun hér á eftir, að svo miklu leyti sem unnt er, gera grein fyrir skiptingu fjárveitinga í frv. til fjárlaga 2002 eftir helstu málaflokkum, eignarhaldi og umsýslu. Hér verður hins vegar að gera þann fyrirvara í upphafi að erfitt getur verið í fyrsta lagi að aðgreina kostnað vegna svokallaðs einkarekstrar frá hinum svokallaða opinbera rekstri.

Það eru t.d. starfandi einkaaðilar eða verktakar víða á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum. Heilbrigðisstofnanir leggja verktökunum til nauðsynlega aðstöðu og viðkomandi stofnun semur um starfsemina. Þetta kemur ekki fram sérstaklega í fjárveitingu til viðkomandi stofnunar, enda óskilgreindur hluti af heildarfjárveitingu þeirri sem stofnunin fær á fjárlögum hverju sinni. Því er erfitt að meta umfang þessarar starfsemi.

Í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár er gerð tillaga um að heildarframlag til heilbrigðis- og tryggingamála verði 89,2 milljarðar kr. Þar af eru um 19 milljarðar kr., eða 21 af hundraði þess fjár sem varið er til málaflokksins í heild sinni, í höndum annarra en ríkis og sveitarfélaga, eða hins opinbera eins og spurt er um. Hlutur einkaaðila í þessu sambandi í rekstrinum er breytilegur og mismunandi eftir málaflokkum og fer frá því að vera enginn í rekstri hátæknisjúkrahúsanna í að vera umtalsverður í rekstri endurhæfingar- og meðferðarstofnana, eða 94% og um 60% í rekstri hjúkrunarheimila eða öldrunarstofnana.

Í málaflokknum tryggingamál sinna einkaaðilar eða sjá um starfsemi sem svarar til um fjórðungs eða um 11 milljarða af ráðstöfunarfé almannatrygginga eins og kemur fram í fjárlögum. Um er að ræða þjónustu sem greiðist af sjúkratryggingum, en stærstu útgjaldaflokkar eru lyf, sérfræðikostnaður, kostnaður við sjúkraþjálfun og tannlækningar.

Í þessu sambandi er í öðru lagi er rétt að taka fram sem fyrirvara að í þeim þremur fjórðu hlutum heildarútgjalda til tryggingamála sem við erum hér að tala um eru fyrst og fremst lífeyristryggingar. Hér kemur ekki fram hlutur sjúklinga í þeirri þjónustu sem einkaaðilarnir sinna.

Hvað öldrunarstofnanir varðar ver ríkið rúmlega 7,9 milljörðum kr. til reksturs hjúkrunarheimila. Af þeirri fjárhæð er ríflega 4,7 milljörðum eða um 60% ráðstafað af einkaaðilum og félagasamtökum. Stærstu stofnanirnar sem fá rekstrarframlag frá ríkinu og eru í eigu einkaaðila eða félagasamtaka eru Hrafnistuheimilin í Reykjavík og Hafnarfirði, Grund, Sóltún sem opnar í byrjun næsta árs, Skógarbær og Hjúkrunarheimilin Skjól og Eir, öll í Reykjavík, Sunnuhlíð í Kópavogi og Ás í Hveragerði.

Þau heimili þar sem eignarhaldið er hjá hinu opinbera eru almennt í eigu sveitarfélaga. Stærstu heimili í þeim flokki tilheyra reynslusveitarfélögunum á Akureyri og Höfn í Hornafirði, Droplaugarstaðir og Seljahlíð í Reykjavík, Holtsbúð í Garðabæ, Garðvangur í Garði og Hraunbúðir í Vestmannaeyjum.

Hlutur einkaaðila og félagasamtaka í rekstri endur\-hæf\-ing\-ar- og meðferðarstofnana er því sem næst algjör, eða 94% af tæplega 2,3 milljarða kr. fjárveitingu. Stærsta stofnunin er Reykjalundur sem fær rúmlega 800 millj. kr. eða um 36% þess fjármagns sem varið er til málaflokksins. Næst kemur SÁÁ, en samtökin taka til sín tæplega fimmtung, 18% af því fjármagni sem ríkið ver til málaflokksins. Þá eru NLFÍ og Sjálfsbjörg í Reykjavík og Akureyri einnig stórir aðilar á þessum markaði, ásamt endurhæfingarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Hvað heilsugæsluna varðar er tæplega 400 millj., eða u.þ.b. 11% af fjárveitingu sem ríkið ver til heilsugæslu í landinu, ráðstafað af einkaaðilum. Þar eru framlög til að standa straum af sjúkraflugi, rekstri sjúkrabifreiða, einkarekinnar heilsugæslustöðvar í Lágmúla auk Læknavaktarinnar á höfuðborgarsvæðinu, en umfang þess rekstrar hefur vaxið um 30% frá árinu 1999 gangi áætlanir eftir um það á þessu ári.

Að auki má benda á að rúmlega 800 millj. kr. flokkast undir liðinn annað. Af þeirri fjárhæð er tæplega 350 millj. kr. ráðstafað af einkaaðilum, eða um 43%. Einkum er um að ræða fjárveitingar til Krabbameinsfélags Íslands og Hjartaverndar, ásamt styrkjum til líknarstarfsemi.

Það sem fellur undir rekstur hins opinbera í þessum flokki er að stærstum hluta rekstur ráðuneytisins auk nefnda og ráða og málefna sem undir það heyra.

Herra forseti. Ég vona að þetta hafi veitt einhver svör við fyrirspurn hv. þm.