Fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:34:19 (1528)

2001-11-14 14:34:19# 127. lþ. 29.8 fundur 222. mál: #A fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirgripsmikil svör á svo stuttum tíma. Ég veit að svari við spurningu af þessu tagi er mjög erfitt að koma fyrir í svo snöggsoðnu máli. Ég vildi því nefna þann möguleika að ráðherrann gerði okkur grein fyrir innihaldi eða efni svarsins með því að dreifa því hér í þingsölum, eftir að umræðu um fyrirspurnina lýkur.

Það kemur í ljós í þessum svörum að einkarekin starfsemi sem ekki telst opinber rekstur innan heilbrigðisþjónustunnar er mjög mikill. Ég verð að segja eins og er að þegar við lítum til baka yfir þær umræður sem hafa orðið hér í hinum háu þingsölum um þetta atriði þá tel ég að sumir í hópi vinstri manna ættu að hugleiða sjónarmið sín aðeins upp á nýtt. Gagnrýni þeirra á einkarekna heilbrigðisþjónustu reynist vera gagnrýni á sjálfseignarstofnanir og á mjög fjölmenn sjálboðaliðasamtök. Þau virðast öllu stærri aðili í hinni einkareknu heilbrigðisþjónustu heldur en einstaklingar, þ.e. einstaklingar sem reka sín eigin fyrirtæki. Þess vegna held ég að þeir ættu að skoða málið aðeins betur.

Ég er þeirra skoðunar, herra forseti, að framtak einstaklinga í heilbrigðisþjónustu, eins og í öðrum greinum, sé mjög mikilvægt. Raunar tel ég að starfsemi þar sem hún fer fram nær stjórnendum, yfirstjórnendum, en gerist á hinum gríðarlega stóru stofnunum, t.d. Landspítalanum okkar, verði líklegri til þess að drífa fram nýjungar og hvers konar þróun en stórar stofnanir, stærri en öll önnur fyrirtæki á landinu, þar sem mjög langt er á milli stjórnenda og þeirra sem í raun og veru vinna verkin.

Það er segin saga með skipulagsfyrirbæri af því tagi að það gengur mjög illa fyrir venjulegt starfsfólk að koma fram hugmyndum um hvers konar nýmæli. Þó ekki væri nema þess vegna, herra forseti, þá teldi ég rétt að við bærum öll virðingu fyrir einkaframtaki í heilbrigðisþjónustu.