Fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:37:02 (1529)

2001-11-14 14:37:02# 127. lþ. 29.8 fundur 222. mál: #A fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Varðandi svar mitt við fyrirspurninni þá er það rétt að það er erfitt að gefa tæmandi svar við henni á svo stuttum tíma. En varðandi efni hennar þá vil ég benda á að þessi ræða er prentuð í þingtíðindum og aðgengileg, þannig að hún liggur fyrir þar. En ég er auðvitað að sjálfsögðu reiðubúinn að taka saman upplýsingar um það sem spurt er um.

Varðandi þá umræðu sem verið hefur hér í þinginu um einkarekstur eða einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu þá er það að segja að eins og fram kom í svarinu annast einkaaðilar mjög stóran þátt í heilbrigðisþjónustunni. Hitt er svo annað mál að þessi þáttur er greiddur af ríkinu í langflestum tilfellum. Ég vil hvetja til réttrar orðanotkunar í þessu. Hún er mjög áríðandi. Ég hef aldrei verið á móti því að semja við ákveðna aðila um að veita ákveðna þjónustu á ákveðnu verði en það sem ég hef varað við í þessu efni er að ég vil ekki hafa tvöfalt heilbrigðiskerfi í landinu, annað fyrir þá sem geta borgað en hitt fyrir þá sem geta ekki borgað. Umræðan hefur af minni hálfu hnigið að því.

Ég er alls ekki að útiloka að einkaaðilar annist þjónustu í heilbrigðiskerfinu. En aðgangur að þeirri þjónustu verður að vera almennur að mínu mati. Ég vildi láta þetta koma fram í framhaldi af þessari almennu umræðu um einkavæðingu og einkaaðila sem sinna heilbrigðisþjónustu. Rétt orðanotkun er áríðandi í þessu sambandi.