Offituvandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:46:17 (1532)

2001-11-14 14:46:17# 127. lþ. 29.9 fundur 257. mál: #A offituvandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Soffíu Gísladóttur kærlega fyrir að vekja athygli á þessu máli með fyrirspurn sinni. Vitað er að átraskanir af ýmsu tagi eru meira í umræðunni, þ.e. anorexía og búlimía, en offituvandamálið fer vaxandi hér á landi eins og kom fram í máli fyrirspyrjandans.

Það sem ég vildi vekja athygli á er að hjá mörgu feitu fólki geta legið að baki ýmis alvarleg vandamál sem mikilvægt er að taka á. Ég tel að mikilvægt sé að ná þeim þverfaglega saman sem hafa sérþekkingu á átröskunum þannig að bjóða megi upp á sérhæfða meðferð handa átröskunarsjúklingum á öllum aldri. Eins og ég boðaði hér í vor er ég að vinna þáltill. um að slíkri þjónustu verði komið á.