Offituvandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:52:45 (1537)

2001-11-14 14:52:45# 127. lþ. 29.9 fundur 257. mál: #A offituvandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í umræðum um þetta mál. Ég held að það sé rétt að málið hefur verið í felum og við þurfum að draga þetta vandamál upp á borðið ef svo má segja og hvað heilbrigðisyfirvöld varðar þá fullyrði ég að það er vilji til þess. Hér er náttúrlega fyrst og fremst um forvarnamál að ræða og á því þarf að taka á ýmsum vígstöðvum. Manneldismálin hafa verið nefnd, mál sem varða lífsstíl og önnur hliðstæð mál.

Ég held að fólk sem komið er í þessa stöðu lendi í vissum vítahring hreyfingarleysis og neyslu og það þarf að hjálpa fólki til að rífa sig upp úr þeirri stöðu. Og hlutverk heilbrigðisyfirvalda og heilsugæslunnar sem hefur verið nefnt hér er mikið í þessu efni. Auðvitað ber heilbrigðisyfirvöldum að gera sitt til að draga þetta mál fram í sviðsljósið og hjálpa til í þessu efni.

Ég hef að öðru leyti ekki meiru við að bæta í umræðunni á þessu stigi, en þakka aftur fyrir að þessu máli skuli vera hreyft.