Nýir framhaldsskólar

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:07:16 (1543)

2001-11-14 15:07:16# 127. lþ. 29.6 fundur 245. mál: #A nýir framhaldsskólar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Aðstæður til menntunar eru að gjörbreytast, að segja má næstum dag frá degi. Ég var rétt í þessu að koma af stofnfundi um landskerfi bókasafna. Þar er menntmrn. og sveitarfélög víðs vegar að af landinu að stofna þetta landskerfi sem sameinar 400 bókasöfn og veldur því að það verður sama hvar menn búa, þeir hafa allir jafnan aðgang að safnakosti landsins. Er það samdóma álit þeirra sem koma að þessu verkefni að það muni gjörbreyta og bæta aðstöðu manna til að nýta sér þann bókakost sem er að finna í söfnum landsins, og þar með einnig auðvelda mönnum að stunda nám hvar sem er á landinu. Hið sama er að segja um hina rafrænu gagnagrunna sem við erum að opna og koma á laggirnar. Þeir munu einnig gjörbreyta allri aðstöðu til að stunda nám, rannsóknir eða vísindastörf hvar sem er á landinu.

Hér er því verið að skapa algjörlega nýtt umhverfi á þeim sviðum sem snerta skólastarf hvað mest, varðandi aðgang að gögnum og aðgengi að hvers konar gagnagrunnum. Menntmrn. hefur mótað stefnu varðandi dreifmenntun eða dreifnám sem hefur verið kynnt og ráðuneytið leggur þá stefnu að grunni þegar rætt er um framtíðarþróun skólastarfs í landinu, sérstaklega framhaldsskóla og háskóla. Við sjáum einnig að nemendur taka þessu nýja framboði öllu mjög vel. Nýlega var svarað fyrirspurn hér á þinginu sem sýndi að fjarnámsnemum hefur fjölgað um eitt þúsund í haust, frá því haustið 2000. Það er að verða gjörbreyting hjá öllum almenningi á viðhorfi til þess hvernig skynsamlegt er að afla sér þekkingar og tölvunotkun. Fjarskiptatæknin gerir fólki kleift að stunda nám með allt öðrum hætti en áður hefur verið.

Ég hef sagt við þá sem hafa rætt við mig frá Ólafsfirði og Dalvík og einnig frá Snæfellsnesi að það verði að líta á hugmyndir um nýja framhaldsskóla í þessu ljósi. Raunar er það svo að við höfum verið í tilraunaverkefni með aðilum á Snæfellsnesi, í samstarfi við sveitarfélagið í Grundarfirði, um fjarkennslu á framhaldsskólastigi sem hefur gefið góða raun og orðið til að breyta viðhorfum, ekki aðeins nemenda heldur einnig annarra íbúa sveitarfélagsins til menntunar. Það hefur stuðlað að því að þeir afli sér menntunar með öðrum hætti en áður.

Varðandi tímasetningar í þessum viðræðum þá ætla ég ekki að slá því föstu hvenær þeim lýkur. Mér barst í vikunni bréf frá þeim sem eru í forsvari fyrir skólana á Snæfellsnesi, þ.e. þá sem eru með hugmyndir um skólana á Snæfellsnesi, þar sem því er lýst að frá þeirra bæjardyrum séð sé ljóst að verkefnið sé viðameira en þá óraði fyrir í upphafi, eins og segir, og nauðsynlegt sé að vinna þetta mál betur og skoða allar leiðir í því.

Á föstudaginn var haldin ráðstefna á Akranesi þar sem menn af Vesturlandi komu saman og ræddu um sín skólamál og þróun á þessu sviði, bæði skólastjórnendur og einnig nemendur, m.a. nemandi úr Grundarfirði sem stundar nám við Fjölbrautaskólann á Akranesi. Menn skiptust þar á skoðunum um ágæti þess að stofna sérstakan framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Ég tel að vinna verði það verk með hliðsjón af því gjörbreytta umhverfi sem við erum að innleiða og taka eigi mið af því að leiðir til að miðla þekkingu eru orðnar allt aðrar en áður. Huga ber að því við stofnun nýrra skóla, raunar hvar sem er á landinu en ekki síst í dreifbýli. Ég tel að þetta séu þau markmið sem eigi að setja sér í viðræðum varðandi Ólafsfjörð og Dalvík og einnig varðandi Snæfellsnes.

Varðandi Ólafsfjörð og Dalvík þá er rétt að geta þess að við höfum óskað eftir umsögnum framhaldsskólanna á Norðurlandi um það málefni og fengið fyrstu svör. Við viljum gjarnan fá afstöðu þessara skóla því að ekki getur það verið markmið nokkurs í sjálfu sér að veikja þá skóla sem fyrir eru með stofnun nýrra skóla. Stuðla þarf að því þegar gengið er til starfs af þessum toga að skapa strax sem bestar forsendur fyrir samstarfi einstakra skóla.