Iðnnám á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:18:42 (1547)

2001-11-14 15:18:42# 127. lþ. 29.7 fundur 267. mál: #A iðnnám á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi DSn
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Drífa Snædal):

Herra forseti. Þegar ákveðið var að stofna kjarnaskóla í iðngreinum var markmiðið að þeir hefðu forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir í starfsnámi og aðstoða aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði samkvæmt lögum um framhaldsskóla 1996. Tilgangurinn var sá að efla iðn- og starfsmenntun í landinu og má segja að það hafi að nokkru leyti tekist hvað aðbúnað í kjarnaskólum varðar.

Í apríl sl. var haldin ráðstefna um menntun í dreifbýli og kom þar fram í máli Jóns Torfa Jónassonar prófessors og Helgu M. Steinsson skólameistara að fleiri nemendur af landsbyggðinni kysu iðnnám en nemendur á suðvesturhorninu. Kjarnaskólarnir eru nær allir á höfuðborgarsvæðinu og eftir að lögin tóku gildi hefur þróunin orðið sú að iðnnámskostum á landsbyggðinni hefur fækkað. Þetta hefur því orðið til þess að nemendur utan af landi þurfa í auknum mæli að flytja búferlum til að afla sér menntunar og þá sérstaklega iðnmenntunar.

Sá tækjabúnaður sem nauðsynlegur er til kennslu í verklegum greinum er kostnaðarsamur og ekki á færi smærri skóla að fjárfesta í honum. Til þess að nemendur geti búið í heimabyggð sinni og aflað sér iðnmenntunar þurfa því að koma til einhver önnur úrræði en að koma upp tækjabúnaði í öllum skólum. Það mætti t.d. haga málum þannig að nemendur tækju bóklegt nám í sínu heimahéraði í skóla eða gegnum fjarnám en sæktu svo stutt en hnitmiðuð námskeið í verklegum greinum í kjarnaskólunum. Þetta hefur verið reynt í einhverjum mæli í háriðngreinum á Austurlandi og gefist ágætlega.

Til þess að við getum gert okkur grein fyrir vandanum og brugðist við í framhaldi af því hef ég lagt fyrir hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurningar á þskj. 312:

1. Hversu margar iðnnámsbrautir hafa verið lagðar niður á landsbyggðinni í kjölfar þess að kjarnaskólar í iðnnámi voru stofnaðir?

2. Hversu margir iðnnemar sækja nám á höfuðborgarsvæðinu en eiga lögheimili utan þess?

3. Hversu margar kennarastöður hafa verið felldar niður í kjölfar þess að iðnnámsbrautir hafa verið lagðar niður á landsbyggðinni?

4. Hvernig hyggst menntamálaráðherra fylgja eftir því markmiði að halda opnum leiðum til starfsnáms fyrir sem flesta?