Iðnnám á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:21:25 (1548)

2001-11-14 15:21:25# 127. lþ. 29.7 fundur 267. mál: #A iðnnám á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn byggist á ákveðnum misskilningi. Það hafa engir kjarnaskólar í iðnnámi verið stofnaðir. Hins vegar hefur verið sett í lög að skv. 31. gr. laga um framhaldsskóla megi stofna kjarnaskóla í samráði við starfsgreinaráð en þau hafi forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir í starfsnámi og skólinn aðstoði aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði.

En það hefur enginn slíkur skóli komið til sögunnar. Verið er að þróa þetta verkefni skólanna og því er ekki unnt að fullyrða neitt um hvaða áhrif þessir skólar hafa því að þeir hafa ekki tekið til starfa.

Við teljum að skýringarnar á því að iðnnámsbrautir kunni að hafa verið lagðar niður á landsbyggðinni séu aðrar en þær að hægt sé að rekja þær til kjarnaskólanna. Við teljum að það byggist aðallega á fjölda nemenda og að í skólahaldi verða menn að taka mið af fjölda nemenda hver á sínum stað og það ráði mestu um hvernig framboðinu er háttað.

Síðan er spurt: Hversu margir iðnnemar sækja nám á höfuðborgarsvæðinu en eiga lögheimili utan þess? Á haustönn 2000 var samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands 421 nemandi í námi í löggiltum iðngreinum á höfuðborgarsvæðinu en með lögheimili utan þess.

Þá er spurt hve margar kennarastöður hafi verið felldar niður í kjölfar þess að iðnnámsbrautir hafi verið lagðar niður á landsbyggðinni. Það liggur ekkert fyrir um að sérstök fækkun kennara í iðnnámi hafi átt sér stað á landsbyggðinni á síðustu árum. Við höfum ekki tölur sem sýna að svo hafi verið. En breytingar á starfsmannahaldi skóla þar sem og annars staðar verða fyrst og fremst raktar til þeirra atriða sem ég hef greint frá, þ.e. varðandi nemendafjölda og þróun skólastarfsins almennt. Breytingar á námsframboði skóla eiga sér stöðugt stað og þær skýrast fyrst og fremst af aðsókn nemenda og breytingum sem verða á umhverfi skólanna.

Í fjórða lagi: Hvernig hyggst menntmrh. fylgja eftir því markmiði að halda opnum leiðum til starfsnáms fyrir sem flesta? Í uppbyggingu námsins er miðað við að byrjun þess sé sem almennust og geti farið fram sem víðast. Þá er leitast við að nemendur geti tekið grunn námsins eða fyrstu þrepin heima og byggt svo ofan á það í öðrum skólum. Má þar t.d. nefna grunndeildir margra iðngreina, grunnnám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum, skipstjórnar- og vélstjórnarnám. Seinni stig námsins og þau sérhæfðari verða eðli málsins samkvæmt ekki í boði á mörgum stöðum á landinu og til að greiða nemendum með búsetu utan kennslustaða aðgengi að námi hefur verið lögð áhersla á að auka styrki til jöfnunar námskostnaðar og að nýta þá möguleika sem fjarkennsla hefur upp á að bjóða.

Eins og hér hefur komið fram áður hefur fjarkennsla farið ört vaxandi síðustu missirin og í henni felast miklir möguleikar til að kenna greinar þar sem nemendur í fámennu starfsnámi búa dreift um landið. Má þar t.d. nefna fjarkennslu í veiðarfæragerð sem hefur verið haldið úti af Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjum og hefur gefið góða raun. Það er verið að fikra sig inn á þessar brautir og ég tel að verið sé að leita allra leiða til þess að bjóða slíkt nám sem víðast með verkaskiptingu á milli skólanna og fjarnámi. En það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. og fyrirspyrjanda að það er alls ekki unnt að byggja upp þá bestu aðstöðu sem menn telja að þurfi að vera til þess að nemendur fái að kynnast því sem best er víða á landinu, heldur verður að sérhæfa sig í því efni. Það er e.t.v. það sem hv. þm. á við þegar rætt er um kjarnaskóla að tekin hafði verið ákvörðun t.d. um að fjárfesta í góðum búnaði í Kópavogi fyrir matvæla- og hótelgreinar og í Borgarholtsskóla fyrir iðngreinar og annað slíkt. En það er annað mál en hugtakið kjarnaskóli og kjarnaskólinn í sjálfu sér er ekki annað en forustuskóli varðandi námsefnisgerð og þróun kennsluhátta en hitt er síðan hvernig menn haga fjárfestingum sínum og hvernig þeir vilja binda fé ríkisins, og þar held ég að við hv. þm. séum sammála um að það sé ekki gert með þeim hætti á mörgum stöðum á landinu sem ýtrustu kröfur gera.