Iðnnám á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:30:00 (1552)

2001-11-14 15:30:00# 127. lþ. 29.7 fundur 267. mál: #A iðnnám á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er hreyft mikilvægu máli. Það er rétt sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að mun hærra hlutfall nemenda á landsbyggðinni hefur áhuga á því að fara í iðnnám en á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað að hluta til tengt því hvernig samsetningin er í atvinnulífinu á stöðunum.

Ég held að það mikilvægasta í að endurbæta og breyta starfsnámi hér á landi sé að tryggja enn betri tengsl atvinnulífs og skóla. Ég held að hæstv. menntmrh. gæti beitt sér af krafti í að gera ýmsar tilraunir frekar á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hver svo sem skýringin á því er virðist vera meiri fjarlægð, því er verr og miður, á höfuðborgarsvæðinu á milli skóla og atvinnulífs en víðast er á landsbyggðinni. Þess vegna væri að mínu mati afar þarft að gerð yrði tilraun til að treysta þessi tengsl einhvers staðar á landsbyggðinni þar sem verknámsskóli er til staðar.