Iðnnám á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:33:58 (1555)

2001-11-14 15:33:58# 127. lþ. 29.7 fundur 267. mál: #A iðnnám á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ekki er hægt að drepa á allt það sem komið hefur fram í þessum ágætu umræðum. Ég vil þó geta þess að þær breytingar voru gerðar á síðasta þingi að nú er unnt að taka stúdentspróf þótt menn innriti sig á starfsnámsbrautir þannig að sá nemandi sem fer í verknám getur í raun lokið framhaldsskóla, bæði með starfsréttindanámi og síðan einnig með stúdentsprófi, sem veitir honum aðgang að framhaldsnámi þannig að ég tel að þegar við lítum á innritun í framhaldsskólana virðist hún ekki ráðast af því sem við segjum á þingi eða hve mikla fjármuni menn setja í einstakar námsbrautir í skólunum heldur af vali nemendanna á þeim möguleikum sem þeir telja sig hafa þegar þeir útskrifast úr skólunum. Með því að opna þessar leiðir fyrir starfsnámsnemendur, að þeir geti bæði útskrifast með starfsréttindi úr skólanum og einnig bætt við sig einingun og lokið stúdentsprófi, má segja að við höfum opnað fleiri möguleika fyrir þá sem innritast í verknám eða starfsnám en þá sem fara á bóknámsbrautir. Við höfum þar með tekið ákvarðanir hér sem eru mjög róttækar þegar litið er til þróunar skólastarfs okkar og ég held að það skipti mun meira máli þegar fram líða stundir en spurningin um það hvort skóli sé á þessum stað eða öðrum því að það er rétt sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda og upphafsmanns þessarar umræðu að það er ekki síður félagslífið í skólanum sem menn líta til og þess vegna virðist það vera að stærri skólar verða alltaf stærri og hinir minni minnka. Það er eins og einhver sagði --- ég hef tekið þátt í mörgum fundum um þetta mál: Menn vilja frekar stunda nám í 900 manna skóla en 9 manna skóla. Menn vilja frekar vera í félagslífinu þar sem eru 900 manns heldur en þar sem eru 90 manns.

Þessi viðhorf verður líka að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur þróun skólastarfsins um leið og við megum ekki slaka á neinum faglegum kröfum.