Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:49:39 (1559)

2001-11-14 15:49:39# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Seint verður þjóðarsátt um kvótakerfi í fiskveiðum á Íslandi. Í umræðunum má ekki gleyma því að þegar kvótakerfi var komið á var sjávarútvegur á Íslandi í rúst, sjávarútvegsfyrirtækin römbuðu á barmi gjaldþrots og öll efnahagsstjórn landsins tók mið af rekstri þessara fyrirtækja. Gríðarlegar framfarir og verðmætaaukning hefur orðið á meðferð þess hráefnis sem að landi berst. Því miður berst ekki allt hráefni að landi. Um það ræðum við í dag.

Fiskvinnsluhúsin eru flest orðin glæsileg matvælafyrirtæki og ekki sjást lengur haugar af hálfónýtu illa lyktandi hráefni fyrir utan þau eins og áður tíðkaðist.

Þrír þættir eru mest gagnrýndir í þessu kerfi og fara fyrir brjóstið á þjóðinni. Fyrst nefni ég framsalsréttinn og þá peninga sem í honum eru. Því næst nefni ég þá miklu peninga sem rétthafar kvótans fá þegar þeir selja sig úr greininni og loks brottkast á fiski sem að sögn fróðra manna hefur allt of lengi viðgengist á Íslandsmiðum, frá því löngu fyrir kvótakerfið, en brottkast hefur væntanlega aukist í því kerfi.

Bent hefur verið á að líkja mætti brottkastinu við ævintýri H.C. Andersens um eldfærin þar sem dátinn kastaði kopar fyrir silfur og silfri fyrir gull. Brottkast er svartur blettur á fiskveiðum Íslendinga. Brottkast er svartur blettur á umhverfisstefnu Íslendinga og brýtur í bága við sjálfbæra þróun og siðgæði þjóðarinnar. Að þessu leytinu til erum við umhverfissóðar. Við lifum í heimi þar sem milljónir manna svelta og það er skylda stjórnvalda að koma hlutunum þannig fyrir að allur afli komi að landi og öllum öðrum verðmætum sem nýta má sé ekki hent í sjóinn, svo sem hausum o.fl. Okkur ber að nýta og gera sem allra mest verðmæti úr því sem hafið gefur. Það er beinlínis skylda okkar. Á Íslandi eru allt of mörg skip um allt of fáa fiska. 5% reglan er spor í rétta átt.