Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:54:18 (1561)

2001-11-14 15:54:18# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að boð og bönn duga ekki til að koma í veg fyrir brottkast. En fluttar hafa verið tillögur um hvernig mætti takast öðruvísi á við þetta vandamál og hv. þm. Jóhann Ársælsson rakti það í framsögu sinni hvernig við jafnaðarmenn höfum viljað takast á við brottkast og hvernig tryggja mætti að allur nýtanlegur afli kæmi að landi.

Ég hjó hins vegar eftir því, herra forseti, að hæstv. ráðherra orðaði það svo hér áðan að kerfið gengi út á að hamla gegn því að afli kæmi að landi. Við viljum fara þveröfugt í þetta, herra forseti. Þegar búið er að veiða fiskinn þá er eins gott að hann komi að landi. Við eigum hins vegar að reyna að hamla gegn því að menn veiði fisk sem ekki má koma að landi, en ef hann er veiddur skal hann koma.

Menn tala mikið um að ástæður brottkasts liggi í því starfsumhverfi sem sjávarútveginum er sett, m.a. með lögum héðan frá Alþingi, og það er rétt. Það er þó mikil einföldum að kenna bara fiskveiðistjórnarkerfinu um. Menn hirtu ekki heldur allt fyrir daga kvótakerfisins og menn mega ekki horfa fram hjá því vegna þess að þá eru menn ekki að leita raunverulegra lausna. Það skiptir máli að markaður sé fyrir þær fisktegundir sem veiðast nú eins og þá og að fiskvinnslan geti valið hráefni sitt á markaði, að ekki sé um að ræða val úti á sjó þar sem einungis sá afli kemur að landi sem hentar viðkomandi vinnslu eins og dæmi þekkjast um þar sem bátum er gert að afla aðeins tiltekins hráefnis fyrir tiltekna vinnslu. Þar dugar engin tegundartilfærsla, herra forseti. Þess vegna er sú hugmynd að flytja kvóta á fiskvinnsluhús eitthvað það galnasta sem menn hafa sett inn í þessa umræðu. Nær væri að efla fiskmarkaðina.

Við lausn þessara mála, herra forseti, mega þröngir sérhagsmunir ekki ráða. Til þess er málið allt of stórt, allt of mikilvægt.