Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 16:03:10 (1565)

2001-11-14 16:03:10# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er einkum tvennt sem þessi umræða hefur dregið fram að mínu viti. Í fyrsta lagi er brottkastið loks viðurkennt. Því er ekki lengur haldið fram að þeir sem um það tala séu að fara með fleipur. Ég held að það sé mjög mikilvægt og sé aðeins til þess fallið að færa okkur fram á veginn.

Hitt sem liggur líka fyrir og er ljóst eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. ráðherra er að kerfið verður varið með öllum tiltækum ráðum og breytir þar engu um hvort gallar þess séu dregnir mjög skýrt fram. Má til að mynda nefna að við höfum veitt núna frá því að kvótakerfið var tekið upp á bilinu 300--350 þús. tonn að meðaltali á móti 500--600 þús. tonnum áður en þetta kerfi var tekið upp. Það er ekkert sem verið er að finna upp í þessari umræðu. Þetta er bara veruleiki sem liggur fyrir og ég held að þetta sé eitt af því sem við verðum að skoða í því samhengi.

Það vakti einnig mikla eftirtekt hjá mér, virðulegi forseti, þegar hæstv. ráðherra komst svo að orði að sumir einstaklingar eða útgerðarmenn geri einungis út í því skyni að brjóta af sér. Með öðrum orðum, að fram fari skipulögð glæpastarfsemi í þessu skyni.

Einnig kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann hyggst ekki grípa til einhverra sérstakra lögregluaðgerða vegna þessa. Ég held að hæstv. ráðherra verði að skýra það mjög vel ef hann hefur um það ljósa vitneskju, mikla þekkingu á því að tilteknir einstaklingar séu að gera út í því skyni og með það að markmiði að brjóta af sér, hafi harðan og einbeittan brotavilja í því skyni, þá verður hæstv. ráðherra að grípa til einhverra aðgerða. Við getum ekki unað því að yfirvöld bregðist ekki við þegar slík vitneskja liggur fyrir.