Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 16:05:28 (1566)

2001-11-14 16:05:28# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég held að ljóst sé, bæði af umræðum okkar í vetur á hv. þingi og þeim athugunum sem gerðar hafa verið á fiskveiðum og brottkasti, að brottkast hefur ævinlega fylgt veiðum og það mun vera breytilegt enn í dag sem fyrr. Umræðan um brottkast er þess vegna eðlileg, ekki síst í ljósi þess að við teljum nauðsynlegt að stjórna veiðum með tilliti til ástands fiskstofnanna sem eru mikilvægustu auðlindir okkar.

Hins vegar verður að segjast að frétt um brottkast, sem nýlega kom fram og við ræðum í dag, er ekki þessleg að við teljum þær aðferðir sem þar voru viðhafðar trúverðugar sem dæmi af venjulegum starfsdegi sjómanna. Menn virða það mikið fyrir sér hvort orsakanna megi leita í kvótakerfinu, hvort rétt sé að bregða á annað ráð varðandi stjórnkerfi veiða og hvort sjómenn hafi gripið til örþrifaráðs. Ég verð að viðurkenna að ég tel að neyðarráð af þessu tagi eigi sér ekki forsendur í afkomumöguleikum Íslendinga í dag, ekki heldur við sjómennsku. Ég tek einnig fram þá skoðun mína að mér sýnist að reynsla okkar af öðrum stjórnkerfum bendi ekki til þess að þau muni reynast betur í þessu efni.

Ævinlega þegar veiðiréttur verður takmarkaður hvort sem það er í formi sóknarréttinda eða aflaréttinda, þá birtist þessi freisting og leitar á menn æ sterkar en fyrr þegar réttindin voru rýmilegri. Takmörkun aflaheimilda yfirleitt hefur sömu áhrif, en það segir okkur ekki með samanburði við önnur efnahagsbrot að það geri mönnum réttmætt og réttlætanlegt að brjóta lög. Engan veginn getur það verið réttlætanlegt og talist gengið fram af ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum, þeirra eigin afkomendum að ganga svo ótæpilega á mjög takmarkaðar auðlindir. Ég tel, herra forseti, að mesta ábyrgð okkar í þessu efni sé auðlindin í hafinu, ekki núverandi sjómenn. Öllu frekar komi þar á undan þeirra eigin afkomendur.

Menn velta einnig fyrir sér hvort framsalsheimildir hafi einhver sérstök áhrif. En þá verður að segjast að þau rök um fyrningarleið og uppboð allra veiðiheimilda sýnast stefna enn þá lengra í sömu átt, alls ekki til bóta, herra forseti.