Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 16:07:46 (1567)

2001-11-14 16:07:46# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst samt að sumir hafi dottið í sama farið að réttlæta brottkastið í dag með því að menn hafi hent fiski í sjóinn áður. Það eru auðvitað engin rök í málinu og það brottkast sem við erum að tala um nú er afleiðing af því kerfi sem við höfum núna. Það eru nýjar ástæður fyrir brottkasti frá því sem var áður þegar menn fleygðu fiski í sjóinn af einhverjum ástæðum sem þá voru uppi. Við erum að vinna í nútímanum og þurfum að taka á málum okkar í dag og það hefur enga þýðingu að halda því fram, og ég mótmæli því mjög harðlega, að menn séu að nota brottkast sem eitthvert vopn í baráttu gegn kvótakerfinu. Mér finnst það furðulegt ef það er niðurstaðan.

Ég verð hins vegar að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með að hæstv. ráðherra, sem ég spurði einnar spurningar, skyldi ekki svara henni skýrt og ákveðið. Ég spurði hann hvort hann væri tilbúinn til þess að lýsa því yfir að hann mundi skoða með velvilja þá tillögu sem hefur verið uppi í þinginu árum saman um að gera tilraun til tveggja ára eða svo, þ.e. að sjá til þess að allur fiskur komi að landi þannig að hægt verði að vinna út frá þeim upplýsingum sem það gefur okkur og taka ákvarðanir á grundvelli þeirra.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst fráleitt að halda því fram að menn séu að gefa eftir í einhverri heildarstjórn með því að fara að slíkri tillögu. Og ég vek athygli á því að hv. 1. þm. Vestf. hafði enga trú á því að eftirlitið og einhverjar þvinganir frá stjórnvöldum hefðu nein áhrif þegar hann talaði á eftir hæstv. ráðherra sínum. Mér finnst að okkur hafi ekki miðað neitt í þessari umræðu ef stjórnvöld eru ekki tilbúin til þess að fara í virkilega alvörutilraun til að koma í veg fyrir brottkast á Íslandsmiðum.