Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 16:10:12 (1568)

2001-11-14 16:10:12# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[16:10]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar koma mér á óvart að loksins núna sé verið að viðurkenna brottkast. Við höfum verið að ræða þessi mál í nærri tvö ár af mjög mikilli hreinskilni, og við höfum gert á því rannsóknir sem liggja til grundvallar þeim aðgerðum sem við erum núna að vinna að, höfum verið að gera, erum að gera og munum halda áfram að vinna að.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson saknar þess að fá ekki svar við spurningunni. Svarið liggur auðvitað í þeim aðgerðum sem þegar er verið að vinna að. Við höfum gert rannsóknir á þessu máli með skoðanakönnunum og menn efast hreinlega um að íslenskir sjómenn svari rétt og heiðarlega fyrir sig ef þeir efast um gildi þeirrar könnunar sem gerð var um jólin í fyrra. Við vitum því hvað um er að ræða.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hlýtur að hafa verið að rugla einhverjum svörum saman hjá mér þegar hann vitnaði til Smuguumræðunnar. Það sem ég var að reyna að segja er að brottkast er ekki bundið við eitthvert eitt fiskveiðistjórnarkerfi. Það getur líka átt sér stað þar sem engin fiskveiðistjórn á sér stað eins og var í Smugunni.

Það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði um að menn væru að réttlæta brottkast í þessu kerfi með því að það hafi einhvern tíma áður verið brottkast, hefur bara ekkert með málið að gera. Brottkastið er ekkert sérstaklega tengt einu kerfi frekar en öðru.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr hvort ráðherra hyggist grípa til lögregluaðgerða. Ég hef ekkert yfir lögreglunni að segja og þar af leiðandi er ég ekki að grípa til neinna lögregluaðgerða. Ég held að það sé engin sérstök lausn í þessu máli, en eins og í öðrum málum verður að rannsaka meint brot og þeir sem verða uppvísir að brotum verða að sæta viðurlögum.

En ég tel hins vegar að þegar við höfum gert þær breytingar sem ég hef hér lýst þá höfum við létt talsvert miklum þrýstingi úr þessu kerfi þannig að þeir sem ekki vilja kasta fiski eiga ekki að þurfa þess. Þeir sem halda uppteknum hætti, herra forseti, hafa mjög gott af því að þeim sé veitt aðhald með virku eftirliti, sérstaklega ef þeir borga fyrir eftirlitið sjálfir.