Færsla bókhalds í erlendri mynt

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 17:52:03 (1574)

2001-11-14 17:52:03# 127. lþ. 29.11 fundur 224. mál: #A færsla bókhalds í erlendri mynt# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[17:52]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Algengasta frétt á Íslandi í dag er: Krónan fellur. Þess vegna beini ég máli mínu til hæstv. fjmrh. og vil segja þetta: Með fyrirhuguðum skattalagabreytingum er gert ráð fyrir að heimila fyrirtækjum að færa bókhald sitt í erlendum gjaldeyri frá og með næstu áramótum. Staða krónunnar er kunnari en frá þurfi að segja. Hún hefur hríðfallið og verðbólgan hér er sú mesta í vestrænum löndum um árabil. Íslenskur almenningur sem hefur reynt að spara með fjárfestingu í hlutabréfum vegna skattafsláttar hefur a.m.k. í bili tapað stórfé miðað við núvirðisskráningu, ekki síst þeir sem hafa tekið lán til fjármögnunar kaupanna.

Oft hefur verið sagt að eftir höfðinu dansi limirnir. Það er leyfilegt, og hefur verið lengi, að stofna til gjaldeyrisreikninga fyrir hvern sem er. Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en velt fyrir mér afleiðingum af því ef almennt allir leggja, það sem þeir geta lagt fyrir, til hliðar inn á gjaldeyrisreikninga til eigin sparnaðar frá og með næstu áramótum. Hver verða, hæstv. fjmrh., áhrifin af því að heimila íslenskum fyrirtækjum að færa bókhald sitt í erlendum gjaldeyri frá og með næstu áramótum?

Ég velti þessu einnig upp: Hvernig færi ef fólkið í landinu tæki þessi fyrirtæki sér til fyrirmyndar? Ég minnist þess að álíka mál voru mikið áhyggjuefni hjá einni frændþjóða okkar. Reyndar hefur áhugi almennings fyrir sameiginlegri Evrópumynt vaxið, t.d. í Danmörku, Svíþjóð og fleiri löndum. Það er eðlilegt að áhyggjur beinist að þessum málum þegar maður sér fréttir eins og ég vil lesa hér upp, með leyfi forseta: ,,Gengistap Haraldar Böðvarssonar hf. 766 milljónir.`` Ég vil jafnframt minna á orð hæstv. utanrrh. frá miðvikudeginum 7. nóv. þar sem hann sagði í umræðu í tilefni af upptöku evrumyntar að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja geti versnað.

Ég vil enn vekja athygli á stöðu fyrirtækjanna. Afkoma Kaupþings er óviðunandi og enn er engar yfirlýsingar að fá frá Baugi varðandi þessi mál og svona má lengi telja. Algengasta fréttin, eins og ég sagði í upphafi máls míns, er: Krónan fellur, og hefur aldrei verið lægri.