Færsla bókhalds í erlendri mynt

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 17:55:13 (1575)

2001-11-14 17:55:13# 127. lþ. 29.11 fundur 224. mál: #A færsla bókhalds í erlendri mynt# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[17:55]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hv. þm. beinir til mín fyrirspurn í einni setningu, þ.e. eftirfarandi setningu:

,,Hefur verið unnin úttekt á hugsanlegum áhrifum þess á stöðu íslensku krónunnar að heimilt verði íslenskum fyrirtækjum að færa bókhald sitt í erlendri mynt?``

Síðan flutti hann mál sitt og blandaði mörgum öðrum hlutum saman við sem ekki varða þetta mál en sem mörgum hættir reyndar til að blanda saman við þetta spursmál.

Fyrst vil ég segja, herra forseti, að hugleiðingar þingmannsins um gjaldeyrisreikninga almennings koma þessu máli ekkert við. Almenningur hefur getað lagt gjaldeyri inn á sérstaka gjaldeyrisreikninga á Íslandi frá árinu 1977. Á því hefur engin breyting orðið og verður ekki við þetta. Það er misjafnt hvað fólk hefur nýtt sér þetta. Það var töluvert í upphafi. Áhuginn hefur minnkað en það er kannski vegna þess að menn geta lagt inn á gjaldeyrisreikninga í erlendum bönkum líka ef þeim sýnist svo.

Það sem er mikilvægt varðandi þessa spurningu um heimild til þess að færa bókhald og ársreikninga í erlendri mynt er að það er ekki verið að leggja niður íslensku krónuna með því. Það er ekki verið að takmarka notkunina á íslensku krónunni. Það er ekki verið að gera neinar grundvallarbreytingar sem varða sjálfa krónuna. Það sem gerist, þegar og ef þessi áform verða lögfest og það er áform mitt að leggja fram frv. um það síðar á þessu þingi sem taka mega gildi um áramót, er að þá geta ákveðin fyrirtæki sem uppfylla ákveðin skilyrði og hafa af því ákveðna hagsmuni fært bókhald sitt og gert ársreikning sinn í einhverri tiltekinni erlendri mynt. Þetta er aðeins ákveðið framsetningaratriði. Viðkomandi fyrirtæki munu halda áfram að greiða laun sín á Íslandi í íslenskum krónum, borga reikninga sína á Íslandi í íslenskum krónum en ekki einhverri annarri mynt, ekki þessari uppgjörsmynt eða þeirri mynt sem kann að verða fyrir valinu. Hins vegar munu ákveðin fyrirtæki hafa ákveðna hagsmuni af því, að því er talið er, að þetta verði heimilað. Auðvitað verður engum skylt að gera þetta. Einhver fyrirtæki sem uppfylla ákveðin skilyrði munu sjá sér hag í því og þau verða þá að sækja um heimild til þess. Ekki getur hver sem er bara ákveðið að gera sig upp í erlendri mynt og valsað á milli gjaldmiðla eftir hentugleikum.

Það er síðan önnur alveg sjálfstæð spurning hvort leyfa eigi fyrirtækjum að telja fram til skatts í erlendri mynt. Það er allt annað spursmál og ég hef ekki gert ráð fyrir að það verði þrátt fyrir þetta. Ársreikningur og bókhald eru opinberir hlutir. Skattframtal fyrirtækja er einkamál þess og skattyfirvalda og er ekki hluti af þessari umræðu.

Hvers vegna vilja menn þá gera þetta? Það er vegna þess að það auðveldar fyrirtækjum fjárhagslegan samanburð við erlend félög sem þau eru í samkeppni við. Þetta minnkar óæskilegar sveiflur í afkomu félagsins vegna breytinga á gengi erlendu myntarinnar gagnvart íslensku krónunni. Þetta eykur áhuga erlendra fjárfesta, þ.e. að geta lesið ársreikninginn í viðkomandi erlendri mynt sem þeir skilja. Það auðveldar erlendum fyrirtækjasamstæðum að stofna dótturfélög á Íslandi og það auðveldar íslenskum móðurfélögum að stofna og reka dótturfélög erlendis.

Um þetta snýst málið en það hefur enga grundvallarþýðingu gagnvart krónunni eða stöðu hennar, og þess vegna hefur sú úttekt sem hv. þm. spyr um í sinni fyrirspurn ekki verið gerð. Við teljum ekki neina sérstaka þörf á því.