Færsla bókhalds í erlendri mynt

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 17:59:59 (1576)

2001-11-14 17:59:59# 127. lþ. 29.11 fundur 224. mál: #A færsla bókhalds í erlendri mynt# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi úttekt hefur ekki verið gerð. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ekkert smámál að menn hafi slíkt vantraust á íslensku krónunni að fara þurfi út í aðgerðir af þessu tagi. Ég held að það geti ekki borið vott um neitt annað en að íslenska krónan hafi ekki verið sá trausti gjaldmiðill sem hún hefði þurft að vera. Þess vegna er verið að gera þetta.

Ýmsir fjármálaspekúlantar hafa líka komið fram sem halda því bókstaflega fram að íslenska krónan muni hverfa úr reikningum allra aðalfyrirtækjanna í landinu á þessum áratug. Það er því ástæða til að velta fyrir sér hvaða áhrif það muni hafa og hvernig menn komast yfir það tímabil. Ég sé full rök fyrir því að einhver úttekt verði gerð og menn reyni að átta sig á afleiðingunum af því að menn eru farnir að vantreysta íslensku krónunni eins og raun ber vitni.