Heildarlántökur erlendis

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 18:09:50 (1581)

2001-11-14 18:09:50# 127. lþ. 29.12 fundur 225. mál: #A heildarlántökur erlendis# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Mér finnst eins og hæstv. fjmrh. vilji helst ekkert ræða þessi mál, þetta var snubbótt svar. (Fjmrh.: Þetta er bara svar við fyrirspurninni.) Ég verð að segja alveg eins og er, að það er mjög skringilegt að menn skuli nú 14. nóvember árið 2001 þurfa að segja þessi orð: Okurvextir á Íslandi 20--22%. Gengisfelling á Íslandi 20--25% frá áramótum. Bandaríski dollarinn er kominn í 108 kr., gengisvísitalan komin í 147,3 stig. Viðskiptahalli undanfarinna þriggja ára yfir 200 milljarðar kr.

Herra forseti. Þetta eru slæm minningarorð um núv. hæstv. ríkisstjórn og efnahagsmálin í hennar höndum. Ef til vill má lýsa því í þremur orðum: Andvaraleysi, sjálfsánægja og agaleysi. Litlar tímasprengjur hafa verið að hlaðast upp í efnahagskerfinu og eru nú að springa í afturendanum á hæstv. ríkisstjórn, hver af annarri þessa daga. Þetta eru daprir dagar.