Heildarlántökur erlendis

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 18:11:05 (1582)

2001-11-14 18:11:05# 127. lþ. 29.12 fundur 225. mál: #A heildarlántökur erlendis# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[18:11]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að viðbrögð hæstv. fjmrh. bendi eindregið til þess að sú staða sem hér var drepið á sé eitthvað sem hann vill alls ekki ræða í dag. Ég get svo sem ekkert undrast það vegna þess að staðan er auðvitað slæm og fréttirnar virðast versna með hverjum degi.

Ég kem inn í umræðuna til að minnast á einn hlut og það eru skuldir heimilanna. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af stöðu þeirra mála. Fólk hefur haft samband við mig sem fyrir ári tók lán í góðri trú á að það gæti staðið í skilum. Það er núna að missa allt í vanskil vegna þess að vextir og allar forsendur hafa gerbreyst. Það sem hv. þm. Gísli Einarsson sýndi fram á þegar hann las upp úr blöðunum gjaldþrotaauglýsingar eða nauðungarupboðsauglýsingar lýsir auðvitað stöðunni. Hún er afar slæm og alvarleg.