Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 10:57:40 (1595)

2001-11-15 10:57:40# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Umræðan um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu snýr oftast öðru fremur ekki um eiginlega einkavæðingu heldur um mismunandi rekstrarform. Hún snýst um það hvort þjónustan er boðin af fyrirtækjum reknum af ríkinu eða af einkaaðilum.

Með samþykkt Alþingis á heilbrigðisáætlun til ársins 2010 var mörkuð stefna um forgangsmarkmið heilbrigðisþjónustu sem yfirvöldum heilbrigðismála var falin ábyrgðin á. Ein meginforsenda þess að hægt sé að hrinda áætluninni í framkvæmd og hefja vinnuna við að ná markmiðum áætlunarinnar er að heilbrigðisyfirvöld hafi fullt forræði, bæði á magni hverrar tegundar þjónustu sem veitt er og hvar þjónustan skuli veitt. Full og óskoruð ábyrgð og forræði heilbrrh. á forgangsröðun verkefna í heilbrigðisþjónustu og úrræðum til þess er líka forsenda þess að hann geti í raun borið ábyrgð á að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustunnar sé á hverjum tíma innan ramma fjárlaga.

Með frv. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem hæstv. heilbrrh. hefur þegar mælt fyrir og hv. málshefjandi nefndi í ræðu sinni er gert ráð fyrir að ráðherra sé tryggð þessi ábyrgð og forsjá forgangsröðunar og hann hafi heimild til allra nauðsynlegra ráðstafana með það m.a. að markmiði að stuðla að aukinni hagkvæmni og að tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar. Ráðherra getur samkvæmt þessu samið um tiltekna þætti heilbrigðisþjónustu, að hún sé veitt utan sjúkrahúsa og af læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum en þeim sem starfa sem launþegar hjá ríkinu. Þetta frv. gerir á engan hátt upp á milli rekstrarforma.

Herra forseti. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins í þeim skilningi að ríkið dragi sig út sem greiðandi þjónustunnar og lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn ráði öllu um verð hennar og gæði er að mismuna fólki eftir efnahag og er óumdeilt í fullri andstöðu við stefnu Framsfl. Einkarekstur í þeim skilningi hins vegar að ríkið semji um kaup á skilgreindri þjónustu í ákveðnu magni sem það ábyrgist greiðslu á getur hins vegar í ákveðnum tilvikum verið jafngóður kostur og ríkisrekstur, og í fyrrnefndu frv. eru því engar hömlur settar.