Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 11:02:28 (1597)

2001-11-15 11:02:28# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[11:02]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um heilbrigðismál og grundvallarþætti í heilbrigðisþjónustunni. Það eru örfá atriði sem ég vil taka fram.

Ég tel að gæði heilbrigðisþjónustu hér á landi séu mikil. Hins vegar þurfum við að taka á ýmsum málum. Heilsugæslan hefur verið byggð mjög hratt upp á undanförnum árum. Það er ekki rétt að landsbyggðin hafi setið þar á hakanum. Vandamálið úti á landsbyggðinni er læknaskortur, en þar hefur uppbyggingin verið gríðarlega mikil. En hún hefur setið eftir í höfuðborginni vegna byggðaröskunar m.a. Það er vandamál sem við eigum við að etja hér.

Ég verð að láta það koma fram að biðlistar í bæklunaraðgerðum, sem komið var inn á, eru slæmir. Við höfum gert ráðstafanir til þess að setja í það viðbótarfjármagn á næsta ári og einnig hef ég nýlega gert ráðstafanir til þess á óskiptum liðum að setja viðbótarfjármagn til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri til að gera fleiri bæklunaraðgerðir til áramóta. Það er verkefni sem við þurfum að fást við.

Ég tel að verði fyrir grunnþjónustu í heilsugæslunni eigi að stilla í hóf og ég tel að sjúkrahússþjónustan eigi að vera mönnum að kostnaðarlausu. Hins vegar finnst mér stundum að blandað sé saman í umræðunni einkavæðingu og einkarekstri. Það er sitt hvað. Einkarekstur er, eins og komið var ágætlega inn á af hv. þm. Jónínu Bjartmarz og fleirum í umræðunni, mjög algengur í heilbrigðisþjónustunni. Hann hefur gengið ágætlega og við höfum blandað kerfi að því leyti. Einkavæðing er allt annað ef markaðslögmálin eru látin ráða. Því er ég á móti. En einkarekstur getur vel þrifist innan þessa ágæta kerfis.