Fasteignakaup

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 12:00:22 (1603)

2001-11-15 12:00:22# 127. lþ. 30.1 fundur 253. mál: #A fasteignakaup# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[12:00]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ítrekar spurningar sínar. Ef hún er ekki sátt við þau svör sem hún hefur fengið er að sjálfsögðu rétt að bregðast við því. Hún getur sett fram sína spurningu og þau svör koma fram í allshn. eins og venja er þegar þingnefnd fer yfir frv. Það er alveg ljóst að í svo viðamiklu frv. verður ekki öllum spurningum svarað um efni þess við 1. umr. frv., enda er það ekki meiningin með 1. umr., heldur er það þingnefndin sem fer vel og vandlega ofan í málið.

Sérstaklega var spurt um 12. gr. laga um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu og hvort verið sé með þessu frv. að firra fasteignasala þeirri ábyrgð sem kemur fram í ákvæði um skyldur fasteignasala í 12. gr. þeirra laga. Svo er að sjálfsögðu ekki vegna þess að eins og ég sagði áðan er beiðni um ástandsskýrslu valkvæð. Hún er ekki skylda þannig að það er auðvitað brýn nauðsyn að fasteignasalar hafi áfram sínar skyldur gagnvart kaupendum og seljendum eins og verið hefur hjá þeim sem velja að fara ekki þessa leið. Þessi skylda þeirra helst því auðvitað áfram. Það eru þessi lög sem eru í gildi. Ég benti jafnframt á að í greinargerðinni er lagt til að 10. gr. þessara laga, um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, verði breytt sérstaklega með tilliti til þessa nýja ákvæðis í þessu frv.