Fasteignakaup

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 12:02:09 (1604)

2001-11-15 12:02:09# 127. lþ. 30.1 fundur 253. mál: #A fasteignakaup# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[12:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ekki er ætlast til að hæstv. dómsmrh. svari hverju smæsta atriði sem hér er spurt um. En ég ætlast til þess að ákveðnum grundvallaratriðum sé svarað, eins og því sem ég spurði um, þ.e. hvort ekki væri eðlilegt og réttara að skoða það og þá hvort það hafi verið skoðað að fasteignasalarnir sjálfir hefðu með höndum slíkar ástandsskýrslur eins og verið er að tala um í VIII. kaflanum. Þeir hafa ákveðnar ábyrgðartryggingar. Þeir hafa ákveðnar skyldur samkvæmt lögum um fasteignasölu. Á þessu hefði mátt herða, bæði í lögum um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, eða í þessu frv. Ég held að verið sé að búa til óþarfa millilið, óþarfa kostnað við gerð slíkra ástandsskýrsla. Ég held bara miðað við þá miklu þóknun sem fasteignasalar fá fyrir fasteignaviðskipti, sem skiptir hundruðum þúsunda fyrir smáeign, að ekki sé of í lagt að ætla þeim það verkefni að gera slíkar ástandsskýrslur og hafa á sinni hendi matsmenn sem gerðu slíkar úttektir. Þetta er grundvallaratriði sem mér finnst að ráðherrann eigi að geta svarað hér við 1. umr. máls af því hún skiptir auðvitað sköpum varðandi það hvernig allshn. gengur til verka að því er þetta ákveðna atriði varðar.

Ég heyri að við fáum ekki nákvæmari upplýsingar en ráðherra hefur hér lýst varðandi kostnaðinn við þessar ástandsskýrslur sem fer á seljandann og verður síðan velt yfir á kaupandann. Ég hvet til þess að allshn. reyni að fara dýpra ofan í það mál. Síðan held ég að nauðsynlegt sé, þegar verið er að gera slíka grundvallarbreytingu að því er varðar réttindi og skyldur kaupanda og seljanda, að hreinlega verði kveðið á í lögum um skyldu dómsmrh. til þess að kynna þetta frv. mjög ítarlega fyrir landsmönnum þegar þetta er orðið að lögum. Þetta er flókið mál og ég tel eðlilegt að í lögunum verði kveðið á um skyldu dómsmrh. til að kynna landsmönnum réttarstöðu sína samkvæmt þessum lögum.