Kirkjuskipan ríkisins

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 12:30:20 (1608)

2001-11-15 12:30:20# 127. lþ. 30.2 fundur 19. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[12:30]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætla að taka það skýrt fram í upphafi máls míns sem verður mjög stutt að ég er og vil vera styrktarmaður kirkju og kristni á Íslandi enda var það mjög skýrt tekið fram af 1. flm. þessa máls, hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, að tilgangurinn væri allra síst sá að veikja þjóðkirkju okkar.

Þetta snýst einvörðungu um jafnræði og jafnrétti af því sem augljóst er, að ríkisvaldið umannast ríkiskirkjuna. Og til þess svo að skjóta því hér inn í, þá eru uppi mjög strangar skoðanir um ríkisrekstur í landinu og maður skyldi kannski halda að þetta félli þeim í geð sem hallast að honum sérstaklega.

Eins og hv. frsm. kom inn á er hér vaxandi fjöldi erlendra þjóðarbrota sem stundar kristni sína með öðrum hætti en gert er í þjóðkirkju okkar. Ég minni enn fremur á það sem fram kom, að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur tjáð sig um þetta mál og aðhyllist þessa breytingu. Það er auðvitað enginn dómur og engin fyrirsögn um það hvað gert skuli.

Enn fremur ber að leggja mikla áherslu á, eins og gert var af hv. frsm., að gefinn verði nægur tími til breytinganna. Þetta er viðamikið mál, án vafa, og þess vegna á ekki að hrapa að neinu í þessum sökum enda er hér svo ráð fyrir gert.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi breyting þar sem kirkjan yrði algjörlega sjálfstæð um allan rekstur sinn mundi verða til þess að stórefla kirkjuna. Það er því miður orðið svo nú að almenningur sýnir kirkju sinni allt of mikið tómlæti. Þessu þarf að breyta. Og ef hver og einn finnur til þess að hann sé að vinna í ákveðinni hreyfingu og með ákveðinni stofnun en hefur ekki á tilfinningu þessa útideyfu sem málin virðast komast í held ég að hann mundi finna meira til sín og ljá slíkri stofnun meira og dyggara fylgi sitt.

Ég vænti þess að þetta mál fái vandaða meðferð í þeirri nefnd sem það gengur til en vænti þess að við 2. umr. verði málinu gerð enn þá fyllri skil eftir athugun allshn.