Áfengislög

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 13:31:22 (1614)

2001-11-15 13:31:22# 127. lþ. 30.4 fundur 176. mál: #A áfengislög# (framleiðsla innlendra léttvína) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998. Flutningsmenn ásamt mér að þessu frv. eru hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir.

1. gr. frv., sem er nú reyndar bara ein grein og síðan gildistökuákvæði, hljóðar svo:

,,Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. og 2. mgr. 6. gr. skal heimilt að framleiða án leyfis vín úr innlendum berjum, ávöxtum eða jurtum til eigin neyslu sem í eru að rúmmáli minna en 15% af hreinum vínanda.``

2. gr. hljóðar einfaldlega upp á að lög þessi öðlist þegar gildi.

Í greinargerð segir að tilgangur frumvarpsins sé að gera þeim sem vilja og getu hafa til kleift að framleiða létt vín úr innlendum ávöxtum og jurtum og að þeir megi bera það fram án þess að slíkur heimilisiðnaður teljist lögbrot. Flutningsmenn telja að rétt sé að lagfæra áfengislögin þannig að framleiðsla léttvíns með tilgreindum hráefnum verði leyfð. Með því aukna frelsi sem hér er lagt til gæti innan fárra ára orðið til þekking við gerð matarvína sem kynni síðar að verða séríslensk framleiðslu- og verslunarvara, t.d. vín úr hreinni náttúruafurð eins og íslenskum berjum.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 126. löggjafarþingi en komst ekki á dagskrá og er því lagt fram að nýju.

Sá sem hér stendur lítur svo á að framleiðsla á léttvínum sé í raun hið sama og matargerð. Ég geri lítinn greinarmun á því hvort fólk framleiðir saft eða léttvín til að nýta með mat. Ég lít svo á að ef slík heimilisframleiðsla sem þetta frv. gerir ráð fyrir yrði leyfð gæti þróast á nokkrum árum markverð reynsla til að framleiða matarvín sem ég, eins og ég sagði áðan, lít svo á að gæti einfaldlega orðið hluti af matvælaframleiðslu þessa lands.

Mér finnst að vínmenning Íslendinga hafi breyst svo á síðustu árum og áratugum að ekki sé ástæða til að líta á léttvín sérstaklega sem vímugjafa þótt vissulega megi með góðum vilja drekka svo mikið af léttvínum að menn geti orðið ofurölvi. Það tel ég hins vegar orðið mjög fátítt meðal Íslendinga miðað við það sem var fyrir 30 árum eða svo. Ég held að vínmenning Íslendinga hafi breyst verulega eftir að Íslendingar fóru almennt að stunda ferðalög til annarra landa og kynnast venjum og siðum annarra þjóða.

Ég tel æskilegt að leyfa slíkri þróun, sem hér er um að ræða, að eiga sér stað. Það hlýtur auðvitað að líða að því, á einhverjum árum eða áratugum, að meðferð okkar á áfengum drykkjum breytist. Ég hygg að jafnvel innan fárra ára muni sölufyrirkomulag á áfengum drykkjum einnig breytast á Íslandi.

Tilgangur þessa frv. er auðvitað fyrst og fremst að leiða það fram sem ég tel mig hafa séð og kynnst, að fjöldamargir landsmanna framleiða sín eigin matarvín þrátt fyrir að það sé ekki löglegt. Ég vil gera skýran greinarmun á því hvort menn eru að tala um léttvín, undir 15% styrkleika af hreinum vínanda, eða hvort menn eru að framleiða svokallaðan landa til eimingar sem er þá oft jafnframt misnotaður mjög, oft söluvara til fólks sem hefur ekki leyfi til að kaupa vín.

Mig grunar að til sé þekking á fjölmörgum íslenskum heimilum, einkum í sveitum landsins, þar sem fólk hefur lært að nýta sér íslenskar náttúruafurðir til að framleiða hreint afbragðsmatarvín. Ég tel að ef þetta frv. yrði að lögum kæmist venjulegt, heiðarlegt, íslenskt fólk hjá því að brjóta lög á heimilum sínum. Það held ég að yrði til mikilla bóta. Þá þarf ekki að vera neinn feluleikur í kringum það að fólk kunni að búa til sín eigin matarvín.

Það telst ekki lögbrot að kaupa sér sterkt áfengi í áfengisverslun, t.d. bragðlítinn vodka, og breyta því síðan á heimili sínu í líkjör með því að setja út í hann ber eða aðra ávexti, eingöngu vegna þess að flaskan sem undirstaðan var í var keypt í áfengisverslun. Þá er það ekki lögbrot. Menn mega sem sagt breyta vodka í líkjör. En menn mega ekki framleiða sitt eigið matarvín, þó að þeir kunni til þess aðferðina og séu alls ekki að framleiða matarvín til að breyta því í sterkari vínanda. Flestir vilja hafa matarvín af styrkleikanum 7--12% og sækjast ekki endilega eftir meiri styrkleika en svo.

Þess vegna held ég að þetta frv. sé virkilega tímabært. Það gæti orðið til þess að menn sæktu um leyfi til að framleiða vín til sölu, m.a. úr íslenskum afurðum, íslenskri náttúru. Reyndar er aðili þegar búinn að sækja um leyfi til slíks, norður á Húsavík ef ég man rétt.

Ég held að þetta skref sem við stígum hér sé ágætisbyrjun á því ferli að leiða þá þekkingu fram sem ég tel að búi víða á íslenskum heimilum. Það gæti e.t.v. orðið til þess að þegar fólk er ekki lengur sakamenn fyrir að hafa framleitt léttvín og geta kynnt það á heimilum sínum fyrir vinum sínum eða gestum, kunni síðar að þróast af því þekking og framleiðsla, að við getum litið á matarvínsframleiðslu sem hverja aðra matvælaframleiðslu. Ég tel það æskilega þróun að menn fari að umgangast vín með þeim hætti að þess megi neyta án þess að það valdi neinum skaða, heldur sé það eingöngu til ánægju.