Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 13:47:34 (1617)

2001-11-15 13:47:34# 127. lþ. 30.7 fundur 45. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (arður frá veiðifélögum) frv., Flm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga, sem er 45. mál á þskj. 45, um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flutningsmenn ásamt mér eru Vilhjálmur Egilsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gunnar Birgisson, Árni R. Árnason, Einar Oddur Kristjánsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Einar K. Guðfinnsson, Guðjón Guðmundsson, Tómas Ingi Olrich, Ásta Möller og Sigríður A. Þórðardóttir.

1. gr. hljóðar þannig:

,,Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: 74% fjárhæðar sem einstaklingar og lögaðilar hafa fengið greidda í arð frá veiðifélögum skv. VIII. kafla laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.``

2. gr.:

,,Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.``

Í greinargerðinni segir:

Í þessu frumvarpi er lögð til sú breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt að heimilaður verði frádráttur á mótteknum arði frá veiðifélögum. Í framkvæmd hefur verið mismunur á skattlagningu eftir því hvort jarðareigandi telst stunda atvinnurekstur á þeirri jörð er veiðihlunnindi fylgja. Einstaklingar í rekstri hafa þannig greitt tekjuskatt af slíkum tekjum en aðrir jarðareigendur, sem talist hafa utan rekstrar, hafa greitt 10% fjármagnstekjuskatt af sams konar tekjum. Með lagafrumvarpi þessu er leitast við að jafna þennan mismun, enda eiga ekki sömu sjónarmið við að því er varðar tekjur af þessum eignum og öðrum eignum sem teljast rekstrareignir.

Ákvæði 1. gr. felur í sér að rekstraraðilum, hvort sem um er að ræða einstaklinga í rekstri eða félög, er heimilaður frádráttur á móti mótteknum arði frá veiðifélögum sem nemur 74% af þeim heildararði sem viðkomandi hefur móttekið. Arður þessi telst til rekstrartekna samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en með því að heimila frádrátt á móti sem nemur 74% af mótteknum arði verður raunskattlagning þessara tekna sem næst 10%, eða 10,14% hjá einstaklingum í rekstri og 7,8% hjá hlutafélagi en 9,6% sé skattlagning hluthafa tekin með í reikninginn.

Frumvarp þessa efnis var lagt fram á 126. þingi en komst ekki á dagskrá og er því lagt fram að nýju.

Herra forseti. Hér er um að ræða mjög ósanngjarna skattlagningu sem ég ætlast til að verði leiðrétt. Með þessari lagabreytingu er leiðrétt það misrétti sem viðgengst í skattlagningu tekna af veiðileigu. Bændur sem hafa veiðileigutekjur og stunda búrekstur á jörðum sínum þurfa að greiða fullan tekjuskatt af veiðileigunni á sama tíma og aðrir jarðeigendur sem ekki stunda atvinnurekstur á jörðum sínum geta talið fram tekjur af veiðileigu sem fasteignaleigu og greitt aðeins 10% skatt.

Hlunnindi eru nýtt með tvennu móti. Annars vegar eru hlunnindi sem byggjast að mestu á vinnu bóndans, svo sem æðardúnn, rekaviður og lax- og silungsveiði í net. Hins vegar er nýting með leigu.

Veiðifélög víða um land hafa á hendi leigu veiðiréttar. Þau starfa skv. lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og bera ekki sjálfstæða skattskyldu skv. lögum nr. 75/1981. Veiðileigan er leiga á fasteign og því ekki eiginlegur hluti af atvinnurekstri bóndans. Það er óhjákvæmilegt að taka til endurskðunar skattalega meðferð veiðileigutekna til að leiðrétta það mikla ójafnræði sem nú viðgengst. Þessi mismunun vinnur beinlínis gegn hagsmunum dreifbýlis og er í engu samræmi við byggðastefnu Alþingis.

Herra forseti. Í framkvæmd hefur verið mismunur á þessari skattlagningu eftir því hvort jarðeigandi telst stunda atvinnurekstur á þeirri jörð sem veiðihlunnindin fylgja. Eins og ég gat um áðan hafa einstaklingar í rekstri þannig greitt tekjuskatt af slíkum tekjum á meðan aðrir jarðeigendur sem talist hafa utan rekstrar greiða aðeins 10% fjármagnstekjuskatt af sams konar tekjum. Er því brýnt að leiðrétta þetta.

Til eru mörg dæmi um þetta, t.d. norðan úr landi þar sem tveir bræður bjuggu á jörð og áttu stóran hluta af einni bestu laxveiðiá landsins. Þegar annar bróðirinn féll frá hætti fjölskylda hans búskap og flutti burtu. Hin fjölskyldan varð eftir á jörðinni. Sú fjölskylda sem fór í burtu greiðir aðeins 10% skatt af þeim leigutekjum sem hún hefur af ánni. En hin fjölskyldan sem býr á jörðinni greiðir 30% skatt af leigutekjum sínum. Önnur dæmi er hægt að nefna, t.d. leigutekjur af sumarbústaðalóðum sem farið er með á sama hátt. Þó að jörðin sé í eigu sömu fjölskyldu og ef annar aðilinn er ekki með búskap, þá þarf sá aðili sem er með búskap að greiða meira.

Herra forseti. Eftir þessa umræðu óska ég eftir að frv. verði vísað til efh.- og viðskn.