Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:51:47 (1632)

2001-11-15 14:51:47# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Þær eru um margt spaugilegar, þessar umræður um Orkubú Vestfjarða. Hér var í ræðustól hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, mikill talsmaður einkavæðingar og andstæðingur ríkisrekstrar. Hann ásakar hins vegar annan hv. þm. sem er að vísu mikill talsmaður ríkisrekstrar um að eiga hér jafnvel tvífara. Það er þannig ekkert skrýtið þó að menn velti fyrir sér hvort umskiptingurinn sé víða á ferð. Það var afar óvenjulegt að heyra hv. þm. tala svo rösklega og kröftuglega fyrir ríkisrekstri. Að vísu, herra forseti, gat ég ekki heyrt betur en málflutningur hans ætti ákaflega vel við hér, og hann mætti beita honum oftar vegna þess að auðvitað gilda engin trúarbrögð í þessum efnum. Það verður að kanna aðstæður hverju sinni.

En, herra forseti, grunnurinn í því máli sem hér er um rætt er að sjálfsögðu vandi félagslega íbúðakerfisins. Þess vegna er það óviðunandi að hæstv. félmrh. segi enn einu sinni úr ræðustól að tekið verði á honum eða réttara sagt, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, þegar endanlega liggur fyrir um að taka á þeim vanda.

Herra forseti. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. gefi þinginu betri skýrslu um það í seinni ræðu sinni hvenær megi vænta þess að þetta liggi fyrir. Eftir þessu er búið að bíða allt of lengi. Það er auðvitað ljóst að þennan vanda hefði helst þurft að leysa samhliða, þ.e. þann vanda sem blasir við fjárhag sveitarfélaga á Vestfjörðum og þann vanda sem blasir við sveitarfélögum um allt land vegna vanda félagslega íbúðakerfisins. Það er auðvitað óviðunandi að þessu máli sé stillt upp eins og gert er, þ.e. að öðrum aðilanum í þessum viðskiptum er algjörlega stillt upp við vegg og sagt fyrir um hvernig viðskiptin eigi að fara fram. Auðvitað eiga sveitarfélögin að ákveða sjálf hvernig þau ráðstafa þeim söluhagnaði sem þau fá af eignum sínum.