Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:58:13 (1635)

2001-11-15 14:58:13# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og skil ósköp vel, þótt ég kunni ekki að meta það, hversu hvumpnir ráðherrar, bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., eru gagnvart því að ræða þetta mál en þeir eiga sjálfsagt þar hlut og sök að máli.

Þarna hefur ríkisvaldið gengið fram gagnvart Vestfirðingum af miklum hroka, að mínu mati. Hvernig er t.d. hægt að verja það að ganga að sveitarfélagi og krefja það um að greiða niður skuldir sem eru í fullum skilum, skuldir sem bera lága vexti og er hagkvæmt fyrir sveitarfélagið að hafa og geta nýtt peningana til annarra hluta? Skuldirnar eru í fullum skilum en samt er hægt að setja fram kröfu um að söluandvirði orkubúsins renni til þess að greiða þær skuldir niður, skuldir sem eru í fullum skilum. Hvers konar framkoma er þetta, herra forseti? Það er von að hæstv. ráðherrar kveinki sér undan að ræða og þurfa að standa skil á svona vinnubrögðum.

Herra forseti. Hæstv. félmrh. minntist ekki á hvar vinna þeirrar nefndar stendur sem hæstv. ráðherra skipaði til að gera tillögur um og endurskoða aðgerðir á landsvísu í félagslega íbúðakerfinu og hvernig staðið verði að því að hrinda þeim málum í framkvæmd. Hann minntist ekki á það enda er frekar lítið að gerast þar, að ég best veit.

Herra forseti. Ég mun koma hingað aftur og aftur til að benda á það sem misgert er gagnvart íbúum hinna dreifðu byggða og berjast fyrir rétti þeirra hér inni í sölum Alþingis. Ég mun koma aftur og aftur, herra forseti, í ræðustól til þess að gera það.