Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 15:00:23 (1636)

2001-11-15 15:00:23# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[15:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég veit að þingheimur býður þingmanninn velkominn í þessum erindum hvenær sem hann vill taka til máls. En kjarni þessarar umræðu, kjarni málsins í sambandi við Orkubú Vestfjarða er að að frumkvæði sveitarfélaganna var farið í ákveðna aðgerð til þess að hjálpa þeim til að leysa fjárhagsvanda sinn. Niðurstaðan er núna í sjónmáli og það var ákveðið að tengja þetta mál ákveðinni niðurstöðu varðandi félagslega íbúðakerfið og það er ekkert launungarmál að verðið sem boðið er fyrir eignina tekur mið af því. Það liggur alveg fyrir. Þess vegna má, eins og Pétur Blöndal hefur gert, gagnrýna okkur sem berum ábyrgð á þessari ráðstöfun fyrir hönd framkvæmdarvaldsins fyrir að hafa verið of rausnarlegir. Það má gagnrýna það.

Kjarninn er samt sem áður sá að eftir þessa aðgerð standa sveitarfélögin betur að vígi. Þau verða búin að koma sér betur fyrir gagnvart lánardrottnum sínum, lausafjárstaða þeirra verður betri og auðvitað fer ekki Orkubú Vestfjarða frá Vestfjörðum. Menn tala hérna stundum eins og allt rafmagn á Vestfjörðum muni hverfa við þessa ráðstöfun, við það að eignarhaldið á fyrirtækinu breytist. Þetta er auðvitað fáránlegur málflutningur.

Niðurstaðan er sú að sveitarfélögin munu standa betur að vígi. Ríkisvaldið situr að vísu uppi með þessa eign, sem er vonandi arðbær til framtíðar, og getur með einhverjum hætti hugsanlega samnýtt hana með öðrum rekstri sem það stendur fyrir á raforkusviðinu þannig að vonandi hafa allir einhvern hag af þessum viðskiptum eins og ævinlega á að vera þegar um slík viðskipti er að ræða.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur ítrekað vakið máls á þessu. Hann hefur aldrei, að mínu mati, getað flutt sannfærandi rök fyrir því að það hefði verið einhver önnur leið fær til að leysa þann vanda sem hér er á ferðinni og nú er vonandi verið að klára.