Vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 15:02:58 (1637)

2001-11-15 15:02:58# 127. lþ. 30.9 fundur 49. mál: #A vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa stuðningi við meginefni þessarar tillögu um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu. Vestnorrænu þjóðirnar eru okkar bestu vinaþjóðir. Þetta eru nágrannar okkar og vinir, þjóðir sem við eigum margt sameiginlegt með. Ég hef að vísu talið og tel að við höfum haft ákaflega gott samstarf við þessar þjóðir, en auðvitað má alltaf gera gott betur. Ég veit að flutningsmaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þekkir vel til þessara mála því að ef ég man rétt hefur hann sinnt samstarfi við þessar þjóðir fyrir hönd Alþingis í mörg ár ásamt fleiri hv. alþingismönnum. Hann leggur hér til að hugað verði að auknum framlögum á sviði menningar- og menntamála, atvinnu- og byggðamála, umhverfis- og náttúruverndarmála og samgöngu- og ferðamála. Mér finnst sjálfsagt að skoða þessar ábendingar með jákvæðum huga.

Það er líka lögð hér áhersla á að efla tengsl við nágrannalönd vestnorrænu landanna í austri og vestri með uppbyggingu skipulagðrar svæðissamvinnu á Norðvestur-Atlantssvæðinu í huga. Auðvitað eru þetta frændþjóðir okkar líka. Ef Íslendingar á geta annað borð talað um nágranna þá eru þetta nágrannaþjóðir okkar og frændþjóðir og er sjálfsagt að huga að samstarfinu við þær á þessu sviði.

Lögð er hér áhersla á að rannsaka og rita um sérstök tengsl Íslands og Færeyja, menningarlegan skyldleika, samstarf á sviði atvinnumála og samstöðu og skyldleika þjóðanna almennt. Mér finnst það góð ábending líka vegna þess að Færeyingar eru kannski allra þjóða skyldastir okkur. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Færeyingar séu mesta og besta vinaþjóð okkar, þjóð sem við eigum mikla samleið með og þjóð sem alltaf stendur með okkur og vonandi við með þeim. Mér finnst þetta því hin besta ábending.

Svo er það 6. liðurinn, að rækta tengsl Íslands við Íslendingabyggðir í Kanada og Bandaríkjunum sem ég vil fara örfáum orðum um. Að vísu tel ég að við ræktum þessi tengsl býsna vel. En mér finnst sjálfsagt í tillögu sem þessari að skerpa á því að þessi tengsl séu ræktuð. Þau skipta afskaplega miklu máli. Ástæða þess að ég stóð upp er kannski að mig langar að rifja aðeins upp að ég átti þess kost fyrir rúmu ári að heimsækja Íslendingaslóðir í Kanada og kynnast þessum tengslum. Það var satt að segja ógleymanleg ferð. Það var mikil upplifun að kynnast þessu fólki og finna hve gífurlega sterkar taugar það hefur til Íslands, ekki bara gamla fólkið sem er komið á grafarbakkann heldur önnur kynslóðin og þriðja kynslóðin. Allir vildu spjalla um Ísland, fá fréttir, spyrja um einstaklinga og ættingja, spyrja um atvinnumál, menntun, menningu o.fl. Áhuginn á Íslandi er þarna alveg ótrúlegur og taugarnar til okkar.

Þá var líka ógleymanlegt að keyra þarna um sveitirnar, keyra í gegnum stóra sveit þar sem hvert stórbýlið tók við af öðru og sjá 60 eða 70 bæjarnöfn sem öll voru íslensk. Það var skrýtið að keyra um slétturnar í Kanada og sjá nafnið Arnheiðarstaðir sem er kannski íslenskara en margt annað. Það var líka skrýtið að sjá ána Öxará renna þarna eftir dalnum. En þetta sýnir tengslin og sterka þörf þessa fólks til að halda tengslunum við Ísland.

Það var líka ógleymanlegt að hitta þarna í sveitunum og reyndar í þorpunum líka fólk allt upp í á níræðisaldri sem aldrei hafði komið til Íslands en talaði íslensku eins og það hefði búið á Íslandi alla tíð og hafði ótrúlegan áhuga á því sem hér var að gerast.

Þetta eru hugleiðingar eftir þessa ógleymanlegu heimsókn. Ég hef ferðast víða um heiminn, en fullyrði að þetta er eftirminnilegasta utanlandsferð sem ég hef farið. Þetta á kannski ekki heima í umræðu um þetta dagskrármál. Og þó, þetta finnst mér aðeins renna stoðum undir að það er gott að minna á það í tillögu sem þessari að þessi tengsl verði ræktuð sem mest og best. Ég held að við eigum að leggja áherslu á það.

Ég held reyndar að við höfum ræktað þessi tengsl betur en stundum áður og verið að auka þau á undanförnum árum. Einmitt þegar ég var staddur þarna í fyrra og tók þátt í ýmsum samkomum og uppákomum var m.a. verið að opna mjög glæsilegt hús þar sem eru annars vegar íbúðir fyrir aldraða Vestur-Íslendinga og hins vegar alls konar menningarstarfsemi sem tengist Íslandi og Vestur-Íslendingum. Þettar er stórglæsileg bygging sem að stærstum hluta hefur verið fjármögnuð af löndum okkar úti. Við þessa opnun var einmitt afhent mjög myndarleg gjöf frá íslenska ríkinu sem þeim Vestur-Íslendingum þótti afskaplega vænt um.

Ég tel líka að við höfum ræktað þessi tengsl betur með því að setja þarna sendiherra fyrir nokkrum árum sem að vísu hafði nafnbótina ræðismaður. Svavar Gestsson hafði verið þarna í líklega tvö ár þegar ég kom þarna og það var gaman að heyra hvað fólkið þarna var ánægt með að við skyldum vera með þennan fulltrúa þarna. Svavar og kona hans, Guðrún Ágústsdóttir, höfðu sinnt þessu starfi af feiknalegum dugnaði og krafti og fólkið þarna var afskaplega sátt við þeirra vinnu og ánægt með hvað þau höfðu lagt mikið á sig til að efla þarna félagslíf og tengsl Íslendinganna. Vestur-Íslendingarnir lögðu mikla áherslu á það --- þá stóð fyrir dyrum að Ísland opnaði sendiráð í Kanada í fyrsta sinn --- að þessi starfsemi yrði ekki lögð niður. Því var það að þegar sendiráðið var opnað í Ottawa um þetta leyti árs í fyrra, held ég, og Svavar var gerður að sendiherra í Svíþjóð, að Ísland sendi aftur fyrrv. þingmann og ráðherra, Eið Guðnason, og ég er viss um að hann og hans kona munu standa að þessu starfi með sama krafti og dugnaði og forverar þeirra.

Þetta vildi ég aðeins nefna við þessa umræðu. Ég tek enn og aftur undir þessa tillögu og vona að hún fái greiða leið í gegnum þingið.