Vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 15:09:55 (1638)

2001-11-15 15:09:55# 127. lþ. 30.9 fundur 49. mál: #A vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir þessa ágætu þáltill. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að taka þátt í vestnorrænu samstarfi. Það gerði ég á síðasta kjörtímabili og hafði af því mikla ánægju.

Það er alveg hárrétt sem fram hefur komið að Færeyingar eru sú þjóð sem er næst okkur og sannkölluð vinaþjóð. Það kom vel í ljós eftir hin hræðilegu snjóflóð á Vestfjörðum fyrir nokkrum árum því Færeyingar voru einmitt fyrstir til að rétta okkur hjálparhönd. Þeir áttu þó í miklum þrengingum á þeim tíma en sýndu það í verki að þeir eru okkur mikil vinaþjóð.

Ég tek þátt í norrænu samstarfi í Norðurlandaráði og við sem erum í miðjuhópi í Norðurlandaráði höfum lagt fram þar tillögu sem heitir ,,Ett handslag till Väst-Norden`` eða handtak til Vestur-Norðurlanda vegna þess að við höfum mikinn áhuga á því að vestnorrænt samstarf verði í hávegum haft í Norðurlandaráði. Sumum hefur þótt í það mesta talað um Eystrasaltsríkin á síðustu árum og menn hafa sumir haldið því fram að Vestur-Norðurlönd hafi örlítið gleymst í umræðunni. Ég held að það sé reyndar alls ekki rétt, heldur er um að gera að skerpa á þessum línum því að vestnorræna samstarfið skiptir okkur miklu máli.

Í þessari tillögu er rætt m.a. um sagnaritun og það er sjálfsagt mál að rita þessa merku sögu. Það er talað um atvinnumálin og þar eigum við margt sameiginlegt varðandi fiskveiðar og ferðaþjónustu og það er hárrétt sem kom fram hjá flutningsmanni að það er afar slæmt að ekki skuli vera lengur beint flug frá Íslandi til Grænlands. Íslendingurinn Helgi Jónasson hefur byggt upp myndarlega ferðaþjónustu í Narsaq á Grænlandi. Hann og fjölskylda hans finna mjög fyrir því að eftir að þetta beina flug lagðist niður er erfiðara og auðvitað mun dýrara fyrir Íslendinga að heimsækja Grænland sem er merkilegt land, fallegt og margt er að sjá þar. Á sama hátt og margt sameiginlegt með Færeyingum þá eigum við líka margt sameiginlegt með Grænlandi. Þar skipta auðvitað fiskveiðarnar miklu máli og umhverfismálin.

Það kom einnig fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. að við eigum enn óloknu ákveðnu verkefni sem nauðsynlegt er að ljúka, þ.e. að ná heim því merka skipi Íslendingi sem skipasmiðurinn Gunnar Marel Eggertsson úr Vestmannaeyjum byggði og sigldi með áhöfn sinni um heimsins höf. Það skip er í New York sem stendur. Það er í raun og veru skylda íslenskra stjórnvalda að koma því skipi heilu í höfn heima á Íslandi.

Það er oft sagt að við séum stóri bróðir í hinu vestnorræna samstarfi og litli bróðir í hinu norræna samstarfi. Hvort það er rétt veit ég ekki. En ég má til með í lok þessarar stuttu ræðu minnar að segja frá því að ég var fyrir nokkrum árum í Kirkjubæ í Færeyjum. Þar hitti ég ákaflega skemmtilegan mann sem Sverrir heitir. Ég var að myndast við að reyna að tala dönsku og hann heyrði auðvitað fljótt á mæli mínu að hér var um Íslending að ræða þannig að hann ávarpaði mig fljótt á íslensku. Hann sagði mér til marks um hve skyldar þjóðirnar væru sögu um það þegar hann í gamla daga var að læra skipasmíðar á Akranesi og gaf blóð gamalli íslenskri konu. Þegar blóðið úr Sverri fór að streyma um æðar þessarar gömlu ágætu konu talaði hún eftir það alltaf færeysku á sunnudögum. Hvort þetta er rétt veit ég ekki. En sagan er góð og er kannski táknræn fyrir vináttu þessara þjóða.