Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 15:15:15 (1639)

2001-11-15 15:15:15# 127. lþ. 30.5 fundur 28. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga. Það flytja auk mín hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.

1. gr. frv. er svohljóðandi:

,,Við 7. gr. fjárlaga fyrir árið 2001 bætist: 8.23 Að verja allt að 1 milljarði króna til að greiða úr fjárhagsvanda sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðakerfisins. Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um úthlutunina.``

2. gr. hljóðar upp á að lög þessi öðlist þegar gildi.

Rækilega hefur verið fjallað um í umræðum á þingi, herra forseti, hina erfiðu fjárhagsstöðu nokkurra sveitarfélaga á landinu sem er að hluta til komin vegna skulda við félagslega íbúðakerfið.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á síðasta þingi en hlaut þá eigi afgreiðslu. Vandi sveitarfélaganna á landinu er síst minni nú en hann hefur verið undanfarin ár og því er talið sjálfsagt að leggja frumvarpið fram aftur. Með samþykkt þess fengist hæfilega rúm fjárheimild til þess að hefja aðgerðir nú þegar, þannig að þau sveitarfélög sem erfiðast eiga gætu þar fengið rýmri hag.

Fjárhagserfiðleikar sveitarfélaganna eru ekki síst til komnir vegna skuldbindinga í félagslega húsnæðiskerfinu. Félagsíbúðirnar voru liður í opinberri stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Ríkisvaldið, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins sameinuðust um að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd víða um land. Það var Alþingi sem setti lögin og ákvað einhliða hvar ábyrgðin ætti að liggja. Og Alþingi ákvað að fela sveitarfélögunum fjárhagslega bakábyrgð á félagslega húsnæðiskerfinu. Meðal annars var lögð á þau innlausnarskylda á félagslegum eignaríbúðum.

Nú er fjárhagsvandi nokkurra sveitarfélaga orðinn svo mikill að þau eiga í verulegum örðugleikum með að standa við skuldbindingar sínar og jafnframt veita íbúunum lögboðna þjónustu. Þetta ástand er ekki síst að kenna skuldum þeirra við félagslega íbúðakerfið. Auk þess hafa mörg þeirra orðið fyrir miklum tekjumissi vegna brottflutnings íbúanna.

Í umræðum á síðasta þingi um hlutafélagavæðingu og yfirtöku ríkisins á Orkubúi Vestfjarða kom fram að félagsmálaráðherra hefði skipað nefnd til að móta tillögur um hvernig ætti að leysa fjárþörf félagslega íbúðakerfisins á landsvísu með heildstæðum aðgerðum. Nefnd þessi mun hafa skilað minnisblaði til ráðherra síðastliðið vor, en ekki verður séð að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar í framhaldi af því. Því væri afar fróðlegt, herra forseti, ef hæstv. félmrh., sem er viðstaddur umræðuna, gæti gert grein fyrir störfum nefndarinnar og tillögum og hvenær þess er að vænta að hún ljúki störfum þannig að hægt sé að taka á málinu á landsvísu eins og boðað var í umræðunum fyrr í dag.

Flutningsmenn þessa frumvarps telja afar brýnt að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaga vegna félagslega íbúðakerfisins heildstætt og á landsvísu og eru ósammála því að einstök sveitarfélög séu þvinguð til að selja eignir sínar til að standa skil á skuldbindingum sem þjóðin öll ber sameiginlega ábyrgð á. Má í því sambandi benda á umræðuna hér áðan, þ.e. hvernig farið er að Vestfirðingum þegar þeim er gert að selja orkubú sitt og láta eignarhlutina ganga upp í skuldbindingar við opinbera sjóði eins og Íbúðalánasjóð. Flutningsmenn telja brýnt að leysa með almennum hætti vanda þeirra sveitarfélaga sem nú eiga í fjárhagsörðugleikum vegna skuldbindinga sem þeim var gert að taka á sig í tengslum við félagslega íbúðakerfið.

Herra forseti. Ég tel þetta eitt brýnasta hagsmunamál landsbyggðarinnar, sveitarfélaga um land allt sem í góðri trú við mikinn uppgang og bjartar væntingar byggðu upp húsnæði fyrir íbúa sína eins og þeim er reyndar skylt að gera lögum samkvæmt. Öllum sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að í sveitarfélaginu sé til nægilegt húsnæði fyrir íbúana. Þetta hafa þau gert og í ljósi þeirrar hvatningar sem fólst í þessu kerfi. Við uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni vildu sveitarfélögin ekki láta á sér standa eða verða völd að því að hefta uppbyggingu og eflingu byggðarlagsins.

Því miður hefur þetta víða farið á annan veg. Síðustu árin hafa mörg byggðarlög átt við vanda að stríða. Atvinnutækifæri hafa verið flutt burt og ýmis önnur atvik leitt til þess að byggð hefur skroppið saman og tekjur sveitarfélaganna minnkað. Það má vissulega benda á að þetta sé afleiðing byggðastefnunnar og þeirrar almennu atvinnustefnu og stefnu stjórnvalda í landsmálum sem þarna kemur til. En það þýðir ekki að vera að skella skuldinni á það eitt sér. Þau sveitarfélög sem núna eiga hvað erfiðast verða litlu bættari þó það sé rætt hér fram og aftur. Þau þurfa á aðgerðum að halda þegar í stað til að vera ekki eins og hengd í snöru án þess að geta björg sér veitt. Þarna er ekki um mörg sveitarfélög að ræða, en þau eru þó nokkur sem svona er ástatt um.

Það var sameiginleg ákvörðun á sínum tíma, með lögum á Alþingi, hvernig staðið skyldi að uppbyggingu á félagslega íbúðakerfinu og ábyrgðin var með lögum frá Alþingi sett á sveitarfélögin. Að mínu mati ber Alþingi ábyrgð á að leysa úr því þegar ekki hefur farið eins og vænst var þegar þessi lög voru sett.

Herra forseti. Þetta er afar brýnt mál. Ég legg þunga áherslu á að það nái fram að ganga í haust og í framhaldi af því geta þá væntanlega komið góðar tillögur frá þeirri nefnd sem hæstv. félmrh. hefur skipað til að gera tillögur um lausn málsins á landsvísu. Þá vona ég að myndarlega verði tekið á af hálfu stjórnvalda til að veita fjármagn og fylgja þeim tillögum eftir sem vonandi munu styrkja sveitarfélögin öll á landsvísu. Það má ekki verða þannig að gengið verði á sveitarfélag eftir sveitarfélag og reynt að finna út hvaða eignir þeirra sé hægt að taka upp í skuldir þess, annaðhvort upp í hreinar skuldir eða sem tryggingar fyrir greiðslu skulda.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um þetta frv. legg ég til að því verði vísað til hv. fjárln.