Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 15:25:14 (1642)

2001-11-15 15:25:14# 127. lþ. 30.5 fundur 28. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eiga orðræðu við hv. þm. um eðli málsins í sjálfu sér. Mér finnst persónulega að þegar fram koma tillögur um útgjöld, ég tala ekki um af þessari stærðargráðu, hljóti mönnum að bera skylda til að gera tilraun til að setja fram tillögu um hvernig eigi að fjármagna útgjöldin.

Hv. þm. Vinstri grænna hafa verið duglegir að koma með útgjaldatillögur en minna hefur farið fyrir tillögum um hvernig eigi að fjármagna útgjöldin. Ég ítreka spurningu mína: Liggja fyrir einhverjar hugmyndir um það, þó það séu ekki beinar tillögur, hvernig hv. þm. Vinstri grænna hyggjast fjármagna þetta í fjáraukalögum?