Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 15:26:05 (1643)

2001-11-15 15:26:05# 127. lþ. 30.5 fundur 28. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., Flm. JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Flm. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Stefánsson gæti svo sem velt fyrir sér frammistöðu síns eigin flokks í byggðamálum, eftir að þeir tóku við byggðamálaráðuneytinu, og frammistöðu þess sem sá um byggðamálin þar áður, hæstv. forsrh.

Ég hygg að sé grannt skoðað þá hafi ýmislegt þar farið á annan veg en gert var ráð fyrir í byggðaáætlun og tillögum stjórnarinnar. Ætli þar hvíli ekki nokkur skuld á ríkissjóði, ríkisvaldinu og Alþingi að standa skil á.

Ég minni líka á, herra forseti, að það er Alþingi sem fjallar um þetta mál. Ég minni á þær breytingar sem rætt hefur verið um að gera á fjáraukalögum, ég man ekki hvort það eru 3, 4 eða 5 milljarðar sem þegar er gert ráð fyrir á fjáraukalögum. Sumt finnst mér þar lítið skynsamlegt og annað alveg fráleitt. Ég hygg, án þess að ég ætli að gera það að umtalsefni eða telja upp einstaka liði sem ætti að fella út, enda skiptir það ekki höfuðmáli, að þar séu liðir sem mun minni þörf sé fyrir, sem ríkisstjórnin fer fram á í fjáraukalögum og nú liggja fyrir þinginu, en að standa við skuldbindingar ríkisins gagnvart sveitarfélögunum og létta þar undir.