2001-11-19 15:45:07# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það liggja nú engir flatir í þessari umræðu enn þá. Það kann hins vegar að vera þegar þessi dagur verður að kvöldi kominn að þá liggi einhverjir flatir, en ég fullyrði hér og nú að það verður ekki stjórnarandstaðan á Alþingi. Það er miklu nær að það verði stóriðjupostularnir með hæstv. umhvrh. í broddi fylkingar.

Og auðvitað er það þyngra en tárum taki, herra forseti, þegar hæstv. umhvrh. skilur ekki grundvallaratriði umræðunnar, að með því að samþykkja undanþáguákvæðið sem hún er búin að vera að fagna hér í máli sínu, þá er hún auðvitað að bjóða heim gífurlegum ágreiningi og gífurlegum slag í okkar eigin landi vegna umhverfismála.

Ég spyr enn einu sinni: Málsvari hvers er hæstv. umhvrh.? Ekki umhverfisins, það er alveg ljóst.