2001-11-19 16:00:23# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Við getum sjálfsagt deilt um það hvort reisn hafi verið yfir þessari ræðu eða ekki. Ræðan var ljómandi góð en öll orð um reisn ræðumanna o.s.frv. eru huglæg.

Mig langar til að rifja það upp að fyrsta mál Samfylkingarinnar hér í þinginu var einmitt þáltill. um það að undirrita þegar í stað Kyoto-bókunina. Þetta var þáltill. sem var flutt sameiginlega af því ágæta fólki sem í Samfylkingunni er. Að vísu lenti Samfylkingin strax í basli þegar við spurðum flutningsmenn tillögunnar um það hvað ætti að gera varðandi hugsanlega stóriðju á Reykjanesi og víðar og þá vafðist flutningsmönnum tunga um tönn.

Áðan var verið að rifja hér upp leiðaraskrif fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, þar sem hann talaði um að pípað væri á Íslendinga, klaufaskapur í Kyoto og við riðum í raun berbakt og allt það í öllum þessum samningaviðræðum. En síðan hafa greinilega orðið straumhvörf og batnandi mönnum ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill árétta það sem hann hefur fyrr sagt, að þegar vísað er til ritaðs máls þá er þess krafist í þingsköpum að leita skuli leyfis forseta, þannig að skýrt sé hvar er um beina tilvísun að ræða og hvar ekki.)

Herra forseti. Hér var ekki verið með beinar tilvitnanir heldur bara orðanotkun í ákveðnum leiðurum, hér er ekki um beinar tilvitnanir að ræða. Hins vegar sagði ég einnig að það hefðu greinilega orðið straumhvörf vegna þess að á landsfundi Samfylkingarinnar um helgina kom fram að samfylkingarmenn vilja gjarnan nýta svokallað auðlindagjald, (Forseti hringir.) þ.e. þeir vilja fá að innheimta fyrir mengunarkvótann, ef hv. þm. vildi fara örlítið betur yfir það mál.