2001-11-19 16:02:57# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er að reyna að gera mér grein fyrir hvert þingmaðurinn er að fara því að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kom hér upp og fór að tala um einhverja hluti sem ég sagði aldrei. Ég veit eiginlega ekki við hvern hann var í andsvari.

Ég get hins vegar ítrekað spurningu mína sem var til hæstv. umhvrh. um það hvernig eigi að fara með losunarheimildirnar. Um það var ég að spyrja. Þær hafa verðgildi. Þær eru í raun nokkuð, ef afhent er á silfurfati, ekkert annað en framleiðslustyrkur. Þessu hlýtur hæstv. umhvrh. og hæstv. ríkisstjórn að gera sér grein fyrir, þannig að mig langaði til að inna hæstv. umhvrh. eftir því.

Hvað varðar þau orð er féllu um tillöguflutning Samfylkingarinnar, þá hefur það alltaf legið fyrir að Samfylkingin vildi að við undirrituðum Kyoto-bókunina, öxluðum þá siðferðislegu ábyrgð sem fylgir því að taka þátt í því alþjóðasamstarfi. Það höfum við alltaf gert og það gerum við áfram.