2001-11-19 16:25:30# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekkert að efast um að tilgangur Samfylkingarinnar þá hafi verið sá að senda pólitísk skilaboð til þjóðarinnar og þjóða heimsins um að við vildum vera með í ýtrustu kröfum þegar kæmi að því að uppfylla skilyrði sem fylgdu Kyoto-bókuninni. En það var náttúrlega öllum ljóst samt, öðrum en kannski Samfylkingunni og Vinstri grænum, að þessi skilyrði voru algjörlega óaðgengileg af hálfu Íslendinga því að það hefði orðið algjör stöðnun í allri uppbyggingu í íslensku atvinnulífi um ókomna framtíð með því að samþykkja Kyoto-ákvæðið eins og það var.

Ég held að það væri miklu nær fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna að viðurkenna að það voru mjög mikil mistök af hálfu þessara hv. þm. að rjúka svona til og heimta að þetta yrði undirritað að algjörlega óathuguðu máli eða þá í einhverjum öðrum tilgangi sem ég ætla ekki að skilgreina hér.

Það er náttúrlega ljóst núna með þessu ákvæði að Íslendingar hafa náð stöðu sinni að nýju. Við getum horft fram á veginn og spilað úr því sem náðst hefur, m.a. því hvernig þessi losunarkvóti yrði nýttur og hvort þessi stórfyrirtæki yrðu látin borga einhvern auðlindaskatt af því sem þau eru að fá fyrir minni pening ef þau koma hingað fremur en að fara eitthvert annað, t.d. annarra iðnríkja. Ýmsir möguleikar eru því uppi sem þetta nýja ákvæði hefur skapað.