2001-11-19 16:27:37# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Málið snýst um það hvort maður fer eða fer ekki mjúku leiðina, sem er orðalag sem er svo vinsælt hjá stjórnarliðum að nota, þ.e. mýkri nálgun í samskiptum þjóða. Og það var mýkri leið að skrifa undir og síðan að leita eftir skilningi, miklu mýkri leið.

Herra forseti. Ég hlýt að gera það að umtalsefni hvernig þetta mál er sett fram í þinginu í dag. Hér kemur umhvrh. og flytur þetta mál og byrjar með alveg skelfilegu nöldri í stað þess að sýna gleði sína yfir að hafa náð því fram sem ríkisstjórn hennar óskaði. Aðrir sem hafa komið hér halda þessu áfram. En menn láta sér ekki heldur bara nægja að koma hér og tuða og nöldra í stjórnarandstöðunni í stað þess að segja stoltir: ,,Þessu náðum við fram. Þetta var mikilvægt fyrir þjóð okkar og nú erum við glöð og hress.`` Nei, þvert á móti. Og það ósæmilegasta, herra forseti, er hvernig síðasti talsmaður í þessu máli leyfði sér að tala til samþingsmanna sinna í flokknum Vinstri grænum.