2001-11-19 16:29:57# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þá athugasemd sem hann gerði við orðaval hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Ég ætlaði satt best að segja ekki að trúa því að hv. þm. liðist það athugasemdalaust að líkja stjórnarandstöðunni hér við talibana eins og hv. þm. gerði. Það segir náttúrlega mest um hv. þm. sjálfan.

Varðandi þau ummæli sem hv. þm. Kristján Pálsson hafði hér um þá afstöðu fjölmargra þingmanna á síðasta kjörtímabili að Ísland hefði ekki átt að skorast úr leik og hefði eins og allar aðrar þjóðir sem þátt tóku í Ríó-ferlinu átt að undirrita bókunina í Kyoto, hvað sem síðan liði athugasemdum, fyrirvörum eða fullgildingarferlinu, þá stend ég enn við það að það var afar léleg mórölsk framganga af hálfu Íslands á alþjóðavettvangi að láta ekki einu sinni svo mikið sem undirrita bókunina og sýna þar með vilja sinn til þess að nálgast markmið loftslagssamningsins, enda ljóst að fjölmörg útfærsluatriði og fjölmörg atriði sem vörðuðu stöðu einstakra ríkja voru óleyst. Það lá allan tímann fyrir.

Á það var einmitt lögð áhersla hér af hálfu þeirra sem höfðu önnur sjónarmið í málinu en hæstv. ríkisstjórn að Íslendingar ættu frekar, hvað sem liði afstöðu manna til sérstöðu landsins, að vinna sínum málum framgang innan ferlisins hafandi undirritað bókunina en ekki öfugt. Meira að segja Bandaríkin skömmuðust þó til að undirrita bókunina, ég held, á næstsíðasta degi sem það var hægt miðað við að verða stofnaðilar að henni. Svo þekkjum við því miður söguna hvernig til hefur tekist í framhaldinu. En Ísland skapaði sér þarna algera sérstöðu.

Ég held að ástæðan fyrir því að það hefur náðst fram sem náðst hefur fram sé ósköp einfaldlega sú að Ísland vegur það lítið í þessu dæmi að menn kusu að kaupa frið og hafa Ísland með frekar en láta eitt af OECD-ríkjunum og iðnríkjunum skerast úr leik með þeim hætti, því það hefði verið enn eitt áfall fyrir þetta ferli.