2001-11-19 16:35:50# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki séð annað en að með þessu ákvæði sé verið að leggja einmitt það af mörkum sem skiptir máli fyrir þjóðir heims. Það er m.a. verið að bjóða það að hér séu stóriðjufyrirtæki sem þurfa mikla raforku sem er framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum sem þýðir þá að annars staðar í heiminum þarf ekki að reisa sambærileg álver eða stóriðjuver til að framleiða ál, svo við tökum dæmi.

Ég geri ekki ráð fyrir að neinir fari að framleiða ál nema að þörf sé fyrir það, að markaðurinn kalli eftir því. Ef það yrði ekki reist hér yrði það reist einhvers staðar annars staðar og þá væntanlega í iðnríkjunum. Við erum að tala um þetta hnattrænt. Við erum ekki að tala bara um Ísland sem eyland. Við erum að tala um heiminn allan og því skiptir máli að endurnýjanleg orka okkar verði nýtt á þessu sviði. Besta framlag okkar er að gera það t.d. varðandi álver eða annan iðnað sem krefst mikillar raforku.