2001-11-19 16:43:50# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu skýrsla hæstv. umhvrh. um niðurstöðu 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Hæstv. umhvrh. hefur talað fyrir skýrslunni og gert grein fyrir helstu átakamálum sem komu upp á borð samningsaðila í því ferli sem átt hefur sér stað frá því að Kyoto-bókunin var gerð.

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns gagnrýna það að hið íslenska undanþáguákvæði skuli ekki fylgja skýrslunni. Ég verð að viðurkenna að ég geri ráð fyrir að fæstir þingmenn hafi séð þetta ákvæði sem gengur undir nafninu ,,íslenska ákvæðið``. Mér finnst það ámælisvert þegar gefin er út þó svo vönduð skýrsla sem ég meðal annarra orða, herra forseti, vil þakka, en mér finnst ámælisvert að ákvæðið sjálft skuli ekki vera birt með skýrslunni.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er því til fyrirstöðu að ákvæðinu verði dreift meðal þingmanna, og þá að sjálfsögðu í íslenskri þýðingu, því ég held að við eigum fullan rétt á að fá að sjá það sem samið var um (Gripið fram í: Og upphaflega tillögu.) og upphaflega tillögu og sömuleiðis alla þá orðanna hljóðan sem um er að ræða því öðruvísi getum við að sjálfsögðu ekki tjáð okkur um málið til fulls.

[16:45]

Hæstv. umhvrh. hefur látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum að hún telji að í Marrakesh hafi verið veitt ákveðin eftirgjöf til þjóða sem hún hefur nefnt, t.d. Rússa og Japana. Hún hefur sagt í fjölmiðlum, herra forseti, að með því telji hún að samningurinn hafi verið útvatnaður. Um þetta deilum við ekki. Um þetta erum við hæstv. ráðherra hjartanlega sammála. Hins vegar tel ég að Íslendingar hafi átt sinn þátt í útvötnun samningsins með hinu íslenska undanþáguákvæði. Ákvæðin sem Rússar, Japanar og Kanadamenn voru að berjast fyrir á síðustu metrunum voru að sjálfsögðu skammarleg og þynntu samninginn út til mikilla muna. En, herra forseti, Íslendingar gagnrýndu aldrei framferði þessara þjóða, enda voru þeir sjálfir að berjast fyrir undanþágum í sínum málum.

Hæstv. umhvrh. hefur hamrað á því að íslenska undanþáguákvæðið sé afar umhverfisvænt og geri það að verkum að nú verði Íslendingum ekki meinað að nota endurnýjanlegar orkuauðlindir sínar. Ég spyr, herra forseti: Hver hefur meinað Íslendingum að nota endurnýjanlegar orkuauðlindir sínar hingað til? Ekki nokkur maður, herra forseti. Íslendingum er auðvitað fullkomlega heimilt að nýta allar orkuauðlindir sínar. Spurningin stendur um í hvað eigi að nýta auðlindirnar. Kyoto-bókunin hefur sett skorður við því að auðlindir af þessu tagi séu nýttar til að menga andrúmsloftið enn frekar með útblæstri stóriðju. Það hafa ekki verið takmörk á nýtingu orkuauðlindanna. Eingöngu til stóriðjunnar. Þannig að hæstv. umhvrh. hefur verið að berjast á forsendum stóriðju í samningsferlinu öllu. Fyrir það gagnrýni ég hæstv. ráðherra því að með því hefur ekki verið lagt lóð á vogarskálar umhverfis- eða náttúruverndar sem er hin hliðin á þessum peningi. Það er þar sem hæstv. umhvrh. Íslendinga á að berjast en ekki fyrir hagsmunum stóriðju.

Hæstv. umhvrh. skuldar okkur líka svör við því hvernig hæstv. ráðherra sjái nýtingu þeirra heimilda sem nú hafa náðst fram í Marrakesh. Hvernig réttlætir hæstv. umhvrh. það að stóriðjan skuli fá þessa gífurlegu meðgjöf? Hvernig ætlar íslenskt atvinnulíf að bregðast við því ef íslensk stjórnvöld ætla að gefa stóriðjufyrirtækjum sem koma til Íslands frítt spil í þessum efnum?

Íslensk stjórnvöld borga nánast losunarheimildirnar fyrir stóriðjufyrirtækin en athugum það, herra forseti, að það eru ekki bara stóriðjufyrirtækin, álbræðslurnar, sem þurfa á því að halda að eiga einhverja möguleika á því að menga eða losa gróðurhúsalofttegundir. Þar er einnig annar iðnaður sem við höfum ekki viljað amast við til þessa. Ég nefni þar fiskiðnaðinn. Ég nefni verksmiðjur og ýmsan iðnað um allt land sem þarf eðli málsins samkvæmt að losa gróðurhúsalofttegundir. Þegar allar undanþágurnar verða nú fylltar, með undanþáguheimildum fyrir stóriðjuverin, hvað ætlar hæstv. umhvrh. að láta annað atvinnulíf í landinu gera? Ætlar hún að láta aðra starfsemi kaupa losunarheimildir fullu verði? Hvers á þá annað atvinnulíf í landinu að gjalda? Hvers vegna er þessi þjónkun við stóriðjufyrirtækin?

Herra forseti. Ég endurtek að framganga íslenskra stjórnvalda í þessum málum hefur lýst þröngsýni og skilningsleysi á því sem ég hef viljað meina að væru aðalatriði þessa máls. Hver eru aðalatriði þessa máls? Aðalatriðin eru þau að vestrænar þjóðir verða að ná tökum á losunum gróðurhúsalofttegunda vegna þess að vísindamenn hafa sýnt okkur óyggjandi fram á að ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða til þess að draga úr losun þá eigum við von á gífurlegum neikvæðum loftslagsáhrifum hér á jörðinni sem ekki þarf að tíunda hér. Og hvað þurfum við að gera? Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50--60%. Það er hin sameiginlega ábyrgð heimsins, 50--60%. Hvað átti Kyoto-bókunin að ná miklum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda? Markmiðið var að draga losunina saman um 5,2%. Og hvað hefur náðst? Hvað hefur náðst á vettvangi Kyoto-bókunarinnar?

Enn hef ég ekki séð prósentutöluna, herra forseti, en ég geri ráð fyrir að hæstv. umhvrh. viti betur en ég hver hin endanlega niðurstaða er talin vera í prósentum. Ég fullyrði að hún er sorglega lág.

Þess vegna vil ég segja að það sem vannst í Marrakesh er vissulega sigur en það var varnarsigur. Það var varnarsigur vegna þess að Bandaríkjamenn sem losa 1/4 hluta allra gróðurhúsalofttegunda í heiminum, neituðu að vera með. Þannig var öðrum ríkjum stillt upp við vegg af Bandaríkjunum og það varð að samþykkja hvaða vitleysu sem var á síðustu metrunum til þess að bjarga samkomulaginu, til þess að gæti yfir höfuð orðið eitthvert samkomulag.

Það ekki mikil reisn yfir því, herra forseti, að þurfa að viðurkenna að íslensk stjórnvöld hafi barist fyrir undanþágum. Við getum ekki verið stolt af því. Við viljum að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að draga úr losun á þann hátt að við getum verið stolt af því hvernig orkulindir okkar eru nýttar.

Það hefur oftar en einu sinni komið fram í máli mínu, herra forseti, að ég styð íslensk stjórnvöld heils hugar í öllum hugmyndum um vetnisvæðingu. Ég styð íslensk stjórnvöld heils hugar í öllum umhverfisvænum tilburðum sínum. En það sem hér hefur orðið eru ekki umhverfisvænir tilburðir, alls ekki. (Gripið fram í.) Nú skulum við bara tala um endurnýjanlega orkugjafa. Ég vil fá skilgreiningu frá hæstv. umhvrh. á því hvað eru endurnýjanlegir orkugjafar. Er alveg sama hvernig vatnsorka okkar er nýtt? Getum við alltaf sagt að við nýtum vatnsorku okkar á vistvænan hátt? Mitt svar er: Nei.

Ég vitna í skýrslu risastórrar nefndar sem starfað hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðastofnana sem heitir World Commission on Dams. Skýrslan sem sú nefnd skilaði er afar athyglisverð lesning, herra forseti. Í henni kemur fram að vatnsaflsvirkjanir með risastórum uppistöðulónum séu ekki sjálfbærar virkjanir og þær þurfi sérstakrar skoðunar við. Þess vegna fullyrði ég, herra forseti, að tilburðir íslenskra stjórnvalda í þá veruna að nýta vatnsafl okkar á þann hátt sem þeir nú leggja á ráðin um, þ.e. Kárahnjúkavirkjun með gífurlega stóru uppistöðulóni, beinist ekki að því að nýta þessar auðlindir á sjálfbæran hátt. Þar með tel ég áhöld um það hvort virkjunin sem slík sé umhverfisvæn. Jafnvel þó að orkuframleiðslan losi út af fyrir sig ekki gróðurhúsalofttegundir þá er aðferðin við að ná því afli sem viðkomandi virkjun gæti framleitt svo óumhverfisvæn sem frekast getur orðið.

Ég mundi standa með íslenskum stjórnvöldum í tilraunum þeirra til þess að snúa frá villu síns vegar í þessum efnum og setja upp virkjanir sem væru ásættanlegar fyrir umhverfið. Þá erum við að tala um áframhaldandi jarðvarmavirkjanir. Hvenær hafa Vinstri grænir staðið hér í stóli og hallmælt þeim eða sagt að jarðvarmavirkjanirnar valdi verulegum umhverfisspjöllum? Við höfum einatt sagt að jarðvarmavirkjanirnar lúti öðrum lögmálum hvað það varðar en vatnsaflsvirkjanirnar sem þurfa gífurlega stór uppistöðulón. Hvenær hafa þessi sömu stjórnvöld heyrt hv. þingmenn Vinstri grænna mæla gegn rennslisvirkjunum eða því að ár séu virkjaðar í farvegi sínum? Aldrei, herra forseti.

Við skulum halda okkur við málefnalega umræðu og fá skilgreiningu hæstv. umhvrh. á endurnýjanlegri orku eða endurnýjanlegum orkulindum. Út frá þeirri fullyrðingu að virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun er ekki endurnýjanleg í sjálfu sér, vegna þess að hún eyðir náttúrugæðum (Gripið fram í.) og lónið fyllist og virkjunin er ekki sjálfbær. Þetta eru staðreyndir málsins. Þetta á hæstv. umhvrh. vonandi eftir að koma inn á í síðari ræðu sinni. (Gripið fram í: Eða hæstv. utanrrh.) Eða hæstv. umhvrh. sem situr hér og hlustar á.

Ég þarf líka að spyrja hæstv. umhvrh. um ákveðin atriði í skýrslunni. Þannig er mál með vexti, herra forseti, á bls. 2 er fjallað um árangur sem náðst hefur við álverið í Straumsvík varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á framleiðslueiningu. Sannarlega skal ekki gert lítið úr því að þar hefur náðst talsvert mikill árangur og það hefur sú sem hér talar sjálf kynnt sér. Ég hef skoðað álverið í Straumsvík oftar en einu sinni, bæði áður en þessi árangur náðist og sömuleiðis nú eftir að tæknin hefur bætt ástandið til mikilla muna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um sérstakt orðalag í þessari skýrslu, því það vekur forvitni mína. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta: ,,Þetta átak í mengunarvörnum tengist meðal annars samningi fyrirtækisins við stjórnvöld.`` Nú spyr ég, herra forseti: Hafa íslensk stjórnvöld gert einhvern sérstakan samning við álframleiðslufyrirtækið í Straumsvík varðandi þessi mál? Í framhaldi af því, er ekki hægt að gera sambærilega samninga við fyrirtækin sem nú óska eftir að setja upp stóriðju á Íslandi, þ.e. Norðurál og Reyðarál? Ef hægt er að semja við álverið í Straumsvík um samdrátt í losun og það að besta fáanlega tækni sé nýtt, er þá ekki öruggt að eitthvað svipað sé tryggt í þeim viðræðum sem eru í gangi við önnur fyrirtæki?

Af því að ég er hér farin að tala um bestu fáanlegu tækni þá vil ég líka spyrja hæstv. umhvrh. nánar út í það mál. Nú höfum við verið að fá fréttir í gegnum ráðstefnu sem haldin var á Íslandi í september sl. um að komin sé fram á sjónarsviðið ný framleiðslutækni við rafskautin, þannig að nú þurfi ekki lengur að brenna kolum í rafskautum álvera heldur séu komin fram svokölluð óvirk rafskaut. Þar sem íslenska undanþáguákvæðið byggir á því að besta fáanlega tækni sé notuð, þá held ég að hæstv. umhvrh. verði að svara okkur því hvort ekki verði gerð sú krafa að um leið og þessi óvirku rafskaut komi á markað verði slíkri tækni beitt hjá þeim fyrirtækjum sem nú eru inni í myndinni.

Af því að ræðutíma mínum fer að ljúka, herra forseti, þá er rétt að koma aðeins inn á anda skýrslunnar. Í henni er reynt sem mest að fegra, vil ég segja, hlut íslensku samningsaðilanna. Kannski er ekkert við það að athuga. Það er eðlileg tilhneiging en ég vil gera athugasemd við að að hæstv. umhvrh. skuli gera mikið úr því að innan samkomulags Evrópusambandslandanna séu lönd sem fái heimildir til að losa um 27% á meðan önnur séu svo djörf að lofa samdrætti um meira en 20%. Það eru lönd sem við viljum miða okkur við, t.d. Danmörk, sem ætla sér að draga saman losunina um 21%. Svo að sannmælis sé gætt þá held ég að það sé alveg rétt að hæla Evrópusambandinu fyrir þetta. Evrópusambandið beitti sér af alefli fyrir því að samkomulag næðist og það hefur ákveðið að beita sér fyrir umtalsverðum samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég vildi sannarlega, herra forseti, geta verið stoltari af stjórnvöldum Íslands. Ég hefði viljað sjá þau oftar á sömu nótum og tala eftir sömu línum og forustumenn Evrópusambandslandanna. En því miður var því ekki að heilsa.