2001-11-19 17:06:31# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhvrh. fyrir skýrsluna og þakka þeirri nefnd, sendinefnd Íslendinga, sem hefur unnið að þessu máli árum saman fyrir afskaplega góð störf. Hér er um að ræða ferli sem hefur tekið mörg ár og margir hafa komið að þessu máli, bæði umhvrh., okkar ágæta sendinefnd og ýmsir aðrir ráðherrar. Og það hefur tekið mikinn tíma, bæði fyrir umhvrn. og ýmis önnur ráðuneyti að vinna sjónarmiðum Íslands framgang.

Það hefur hins vegar gengið mjög vel vegna þess að auðvelt hefur verið að tala fyrir þeim sjónarmiðum sem Íslendingar hafa haft í þessu máli. Þau hafa notið mikils skilnings í þeim samtölum sem ég hef átt í sambandi við þetta mál og ég hef enga tölu á. Það hefur verið skemmtilegt að vinna að málinu og við töldum það algjörlega nauðsynlegt þegar þetta ferli var hafið að vinna þessum sjónarmiðum framgang.

Við höfum legið undir mikilli gagnrýni í sambandi við þetta mál hér innan lands, á hv. Alþingi. Ég skil það svo að sú gagnrýni sé nokkuð önnur í dag en hún hefur verið og það er vel, án þess að ég átti mig alveg á því hvort fulltrúar stjórnarandstöðunnar styðja þessa niðurstöðu. Nú liggur fyrir að vinna að því á næstunni að fullgilda Kyoto-bókunina á grundvelli þessa samnings og leggja málið fyrir Alþingi á næsta ári. Væntanlega kemur það í hlut utanrrn. að flytja þáltill. um það eins og aðra samninga sem gerðir eru á erlendri grund, þótt umhvrh. og umhvrn. hafi borið allan þunga af þessu máli.

Mér finnst vera mikilvægt að það sé upplýst í umræðunni hvort þokkaleg samstaða sé um þá niðurstöðu á hv. Alþingi. (Gripið fram í: ... lýsa niðurstöðunni betur.) Ég held að niðurstaðan liggi alveg ljós fyrir. Við höfum heimild til þess að ráðstafa 1,6 millj. tonna vegna sérstakra verkefna í stóriðju. Og það liggur nokkurn veginn fyrir hvaða verkefni þetta eru. Þau eru í Hvalfirði, væntanlegt álver á Reyðarfirði og það snertir líka járnblendiverksmiðjuna, stækkun hennar. Þetta eru fyrst og fremst þau verkefni sem þarna er verið að tala um, sem við töldum nauðsynleg vegna smæðar íslenska hagkerfisins.

Ef menn líta á þær tölur á bls. 9 eins og staðan var 1990, þá er Ísland með 0,016% af þessum 100% sem verið er að tala um. Ríki eins og Lúxemborg, sem er ekki mikið stærra ríki en okkar, er þá með 0,1%. Hvað vorum við að tala um? Við erum að tala um 50% hækkun nokkurn veginn á þessum 0,016%, þannig að við förum upp í 0,025% á móti 1% hjá Lúxemborg.

Þetta eru þær óskaplegu kröfur Íslendinga sem sumir hv. þm. hafa haldið fram að hafi kollvarpað algjörlega þessu máli.

Ég spyr hv. þm. af því hér hefur Evrópusambandið borist til tals: Hvað hefðu hv. þm. gert ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu? Hefðu menn komið á fundi innan Evrópusambandsins og sagt: ja, við viljum bara vera í meðaltalinu, þ.e. mínus 8%? Því ég hef skilið málflutning stjórnarandstöðunnar í gegnum tíðina þannig að Íslendingar ættu að ganga að þessu, gera það sama og aðrir eins og það er látið heita, og þakka fyrir sig. Taka á sig alveg það sama og aðrir, á sama tíma og t.d. Portúgal fær innan Evrópusambandsins 27% aukningu, eða úr 0,3% í u.þ.b. 0,4%. Spánn úr 0,6% upp um 25%, upp í kannski tæplega 0,8%. Hefðu hv. þm. þá, ef þeir hefðu haldið þeim málflutningi, verið með þær kröfur ef viðkomandi þingmenn hefðu verið búnir að ganga í Evrópusambandið, og sagt: við viljum bara meðaltalið? Það hefur verið málflutningur stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi í gegnum tíðina. Þannig höfum við upplifað hann.

Við höfum hins vegar talið að líta þyrfti til sérstöðu Íslands. Og það er ekkert eina undanþágumálið í öllu þessu ferli. Alþjóðasiglingar eru undanþegnar slíkri losun. Þjóðir heims stunda misjafnlega miklar alþjóðasiglingar. Alþjóðaflug er undanþegið í þessari losun, en innanlandsflug ekki. Það er kallað alþjóðaflug milli Brussel og Amsterdam eða milli Amsterdam og London. Það er hins vegar innanlandsflug allt flug innan Bandaríkjanna, þar sem eru raunverulega miklu meiri fjarlægðir en víða innan Evrópu. Eldri skógar hafa komið inn í þetta mál.

Mér hefur hins vegar fundist í gegnum tíðina að í andstöðunni hér á hv. Alþingi endurspeglist andstaða við virkjanir og álver, sérstaklega á Austurlandi. Og menn hafa viljað nota hvert tækifæri til að koma þeirri andstöðu á framfæri, bæði í þessu máli, jafnvel innan lífeyrissjóðanna og reyna að setja stein í götu þeirra framkvæmda á allan hátt og nota hvert tækifæri til þess.

Síðan er því haldið fram af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að það sé ekki endurnýjanleg orka. Það að virkja Jökulsá í Dal í eigin farvegi væri endurnýjanleg orka. Það eru til áætlanir um að virkja þá á í farvegi sínum. Það yrðu miklar eyðileggingar sem þá ættu sér stað á Hafrahvammagljúfrinu.

Að jarðhiti eyðist ekki. Það liggur alveg fyrir að jarðvarmavirkjanir eru ekki óendanleg orka. Hún eyðist. Og það að virkja jarðvarma eingöngu til raforkuframleiðslu er ekki nema 15% nýting af orkunni eða svo. Hitt fer til spillis. Það er ekki fyrr en jarðvarminn er bæði notaður til þess að hita upp vatn og framleiða rafmagn, eins og gerist á Nesjavöllum, að slík nýting fæst út úr því.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þessar skilgreiningar vera afskaplega undarlegar og lítt samkvæmar sjálfum sér.

Aðalatriðið er hins vegar að langri baráttu er lokið og komin er niðurstaða, niðurstaða sem þjónar hagsmunum Íslands, mikil barátta sem niðurstaða hefur fengist í og við fengum allmikla andstöðu við á erlendri grund. Okkur tókst að yfirvinna þá andstöðu. Við höfum orðið fyrir mikilli andstöðu á hv. Alþingi. Ég tel að á margan hátt sé þetta mál --- ég ætla ekki að segja að það sé jafnstórt og landhelgismálið var á sínum tíma, en það er af sama toga. Það varðar réttinn til að nýta íslenskar auðlindir. Landhelgismálið gekk út á það. Þetta mál er samkynja.

[17:15]

Ég tel að hér hafi verið afskaplega vel haldið á hagsmunum, sjálfstæði og fullveldi Íslands til þess að nýta sína eigin orku og ganga til alþjóðasamninga með slíku hugarfari en ekki leggjast flatt fyrir þeim hugmyndum sem fyrstar eru settar fram. Um þetta snýst málið.

Ég tel að þessi niðurstaða sé vel ásættanleg og hún er í fullu samræmi við það sem upphaflega var lagt af stað með. Að okkar mati hefði það hins vegar verið tvískinnungur að byrja á því að undirrita bókunina og gefa þannig til kynna að við mundum fullgilda þennan samning, alveg sama hvernig hann liti út. Ég tel að við höfum gert rétt. Ég tel að það hafi verið tvískinnungur af hálfu Bandaríkjamanna að byrja á að undirrita og draga sig síðan út úr öllu ferlinu. Og ég býst við því að núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna sjái eftir því. Hins vegar er afskaplega mikilvægt að Bandaríkin komi inn í þetta mál, það hljóta allir að sjá, því þeir eru með 36,1% og hafa þar að auki aukið það frá 1990, á sama tíma og við Íslendingar erum með 0,016%.

Allir hljóta að sjá að okkar vandi liggur í því hvað við erum lítið hagkerfi. Ef við værum hluti af stærra hagkerfi, eins og t.d. Evrópusambandsins, liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að hagsmunir þeirrar efnahagsheildar væru að nýta alla endurnýjanlega orku sem til er í þeirri efnahagsheild og draga úr notkun á kolum og olíu. (Gripið fram í: Flytja öll álverin hingað.) Flytja öll álverin hingað? Ja, ef þessi málflutningur á að ganga upp, eru menn þá inni á því að rétt sé að setja allar kolanámur í gang þegar Pólland og Tékkland ganga í Evrópusambandið? Það eru þeir möguleikar sem menn hafa í þeim heimshluta. Ætli sé ekki betra fyrir þessa efnahagslegu heild að byrja á því að nýta orkuna sem mengar nánast ekki neitt, kemur það ekki af sjálfu sér?

Það hefði verið saga til næsta bæjar ef Íslendingar hefðu ekki átt neinn annan kost til að komast út úr þessu máli en ganga inn í aðra efnahagslega heild eins og Evrópusambandið, til þess að geta nýtt orkulindir sínar. Það hefði verið skrýtin nálgun í þessu máli. Var það það sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfðu í huga? Ekki trúi ég því. (Gripið fram í.) Ég hef ekki nokkra trú á því. En ég fagna þessari niðurstöðu. Ég tel hana góða. Mér heyrist á formanni Samfylkingarinnar að hann geri það líka. Hann er alltént glaður í dag og ég tel að það sé ástæða til að gleðjast yfir þessu máli. Ég vona að vinstri græna sé jafnframt svo að skilja að þeim þyki þetta bara góð niðurstaða og nú skulum við bara samþykkja hana og drífa í að fullgilda þennan samning. Og ef allir eru ánægðir með þessa niðurstöðu skal ég að mínu leyti a.m.k. hætta að tala um fortíðarvandann í þessu öllu saman, sem ég skil vel að hv. þm. líði heldur illa undir að sé rifjaður upp. Oft er það slæmt sem menn hafa sagt í fortíðinni, bæði ég og aðrir. En ef menn eru menn til þess að viðurkenna að það hafi allt verið heldur vafasamt og þetta sé bara gott, þá er það hið besta mál og ég vildi gjarnan að þessi umræða gæti endað þannig að við fengjum einhverjar meiri skýringar á því.