2001-11-19 17:20:53# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði nú ekki betur en hér gerðust þau stórtíðindi í ræðu hæstv. utanrrh. að hann færði fram sannfærandi rök gegn því að Ísland væri aðili að Evrópusambandinu (Gripið fram í.) Það er ekki á hverjum degi sem svo ber við.

Ég mótmæli því sem hæstv. utanrrh. reynir að láta hér liggja að, að þetta mál hafi snúist um rétt Íslendinga til að nýta auðlindir sínar. Það er algjörlega fráleitt að stilla hlutum þannig upp og bera þetta saman við landhelgismálið. Þetta snýst um möguleika Íslands til þess að auka losun gróðurhúsalofttegunda um u.þ.b. 50% frá því sem var 1990 vegna þeirra tilteknu stóriðjuáforma sem ríkisstjórnin er með í höndunum. Það vill ríkisstjórnin fá að gera án þess að teknar verði inn í viðvarandi tilraunir alþjóðasamfélagsins til að koma böndum yfir þessa mengun. Svo einfalt er málið. Og það eru miklar reiknikúnstir að halda því fram að það sé sérstaklega í þágu alþjóðlegrar umhverfisverndar að auka hér losun mengandi lofttegunda utan kvóta. Það er bara þannig.

Það sem gagnrýnt hefur verið af okkar hálfu í þessu máli er fyrst og fremst tvennt. Það eru annars vegar vinnubrögðin, þ.e. sú ákvörðun að undirrita ekki, að skera sig úr og undirrita ekki Kyoto-bókunina. Það vakti athygli þeirra sem á annað borð tóku eftir því að Ísland hafði ekki gert það. Menn áttuðu sig ekki á því í byrjun, t.d. á hinum Norðurlöndunum, að ein Norðurlandaþjóðin hefði skorist úr leik og menn urðu mjög undrandi þegar það rann upp fyrir þeim.

Hitt sem var gagnrýnt var sú siðferðilega staða sem Ísland tók sér þar með í málinu. Það var það. Ekki það að einstakar þjóðir eða hópar þeirra gætu ekki áfram unnið að því innan ferlisins að staða þeirra væri skoðuð og metin. Auðvitað hefur alltaf legið fyrir að það væru ótal útfærsluatriði í þessu máli sem þyrfti að vinna að, og er ekki búið enn því hér er eingöngu fyrsta skrefið á ferðinni.